Upplifun mín var sú að það skipti engu máli hvað hafði gerst og hver rökin höfðu verið. Það var eins og það hefði verið ákveðið að það átti bara að dæma bankastjórana, punktur,“ segir Styrmir Þór Bragason, sem starfaði sem forstjóri MP banka á árunum 2006-2009, í nýlegum hlaðvarpsþætti Athafnafólks.
Styrmir Þór var dæmdur árið 2013 af Hæstarétti í eins árs fangelsi vegna meintrar hlutdeildar í umboðssvikum stjórnenda Byrs sparisjóðs í svokallaða Exeter-málinu. Eftir úrskurð Mannréttindadómstóls Evrópu tók Hæstiréttur málið aftur fyrir og vísaði því frá fyrir rúmu ári vegna mistaka Endurupptökudóms að senda málið til Hæstaréttar en ekki Landsréttar. Sýknudómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá árinu 2013 stendur því óhaggaður.
„Núna er maður að leita réttar síns gagnvart ríkinu. Þannig að maður er búinn að vera í þessu í fjórtán ár,“ segir Styrmir Þór.
Hann var ákærður og handtekinn vegna málsins árið 2010, rúmu ári eftir að hann lét af störfum hjá MP banka, forvera Kviku banka. Styrmir Þór lýsir því að hafa verið að yfirgefa heimili sitt að morgni til einn daginn.
„Ég er bara að labba út heima hjá mér með íþróttatöskuna og dagblað undir hendinni þegar tveir menn í jeppa sitja fyrir mér, pikka mig upp í bílinn og segja að ég sé handtekinn. Ég spyr fyrir hvað? Þá vita þeir það ekki og geta ekki svarað því. Þeir verða að hringja í yfirmann sinn og finna út úr því af hverju er verið að handtaka mig,“ segir Styrmir Þór og bætir við að hann hafi síðan verið upplýstur um að hann væri með réttarstöðu sakbornings vegna Exeter-málsins og var fluttur í yfirheyrslu.
„Síðan er maður í þessu ferli í nokkur ár. Fyrst fer fram rannsókn þar sem það er strax mikill leki á upplýsingum út úr Sérstökum saksóknara. Það er öllu lekið í fjölmiðla og menn raunverulega bara gerðir að sökudólgum strax sem er nú þvert á það sem þykir góð regla, að menn eru saklausir uns sekt er sönnuð.“
Á leiðinni til Ítalíu þegar Hæstiréttur sakfelldi hann
Styrmir Þór var ákærður fyrir meinta hlutdeild á tíma sínum sem forstjóri MP banka, í umboðssvikum fyrrverandi stjórnarformanns og sparisjóðsstjóra Byrs. Þeim var gefið að sök að hafa misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum og stefnt fé hans í hættu með því að fara út fyrir heimildir lánveitinga rétt fyrir fjármálahrunið 2008.
Í júní 2011 fór málið fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur og voru þeir allir þrír sýknaðir. Ári síðar dæmdi Hæstiréttur umrædda stjórnendur Byrs í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir umboðssvik en í tilfelli Styrmis Þórs var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur ómerktur og málið hans sent aftur í hérað til endurupptöku. Nýr héraðsdómur tók málið fyrir og Styrmir Þór var á ný sýknaður í ársbyrjun 2013.
Styrmir Þór segir að sýknudómur Héraðsdóms Reykjavíkur hafi verið mjög skýr; sakborningur saklaus af ákærum, framburður sakbornings verið trúverðugur og studdur af framburði annarra vitna. Hæstiréttur tók mál hans aftur fyrir nokkrum mánuðum síðar og kvað upp dóm í október 2013.
„Ég er nú bara staddur á Gatwick flugvelli á leiðinni til Ítalíu að fara að fagna þessum endalokum. Ég átti engan veginn von á því að þetta myndi enda með sakfellingu, sérstaklega í ljósi þess hvernig dómurinn hafði verið skrifaður af Héraðsdómi.
Þá kemur einhver óskapnaður frá Hæstarétti þar sem ég er dæmdur í tólf mánaða fangelsi og raunverulega bara einhver skrif á dómnum sem eru algjörlega óskiljanleg, algjörlega úr takti við það sem ákæran snerist um og við það sem Héraðsdómur hafði fjallað um.“
„Algjört helvíti“
Í kjölfar þess að Hæstiréttur kvað upp sinn dóm ákvað Styrmir Þór að snúa við á Gatwick og fara beint heim til Íslands til að afplána fangelsisdóminn sem fyrst. Hann varði tveimur mánuðum á Kvíabryggju, var tvo mánuði á Verndinni og var einn mánuð með rafrænt ökklaband.
„Þetta er náttúrulega algjört helvíti - auðvitað miklu meira en bara að ganga í gegnum þetta vegna þess að þú ert náttúrulega bara dæmdur maður úti á götu. Þú þarft alltaf að vera á varðbergi, þú veist aldrei hvort það sé verið að fara að veitast að þér eða hvernig hlutirnir eru.“

Styrmir segir að þessi tími hafa reynt mjög á dætur sínar. Honum þótti ótrúlegt hvernig ýmsir hlutir fengu að viðgangast inni í skólastofnunum sem hann segist aldrei hefði trúað að ekki yrði tekið á.
„En svona var bara tíðarandinn á þessum tíma. Það var eins og það væri engin miskunn, það átti bara að láta fólk finna fyrir því.“
Beið í fjóra mánuði eftir kallinu frá Margeiri
Styrmir Þór hafði starfað sem framkvæmdastjóri Atorku fjárfestingarfélags áður en hann var ráðinn forstjóri MP banka árið 2006. Skömmu eftir að Styrmir Þór hætti hjá Atorku hafði Margeir Pétursson, stofnandi MP banka, samband en hann hafði verið hluthafi og stjórnarformaður um tíma hjá Atorku.
„Eftir spjallið hugsa ég, bíddu var Margeir að bjóða mér vinnu eða hvað var hann að hugsa?“ segir Styrmir og bætir við að Margeir eigi það til að tala í gátum. „Svo fjórum mánuðum síðar hringir hann í mig og segir „Styrmir, ég ætla að bjóða þér forstjórastarfið í MP banka“.“
Styrmir Þór hafði í millitíðinni verið ráðinn á lánasvið Landsbankans. Þrátt fyrir að Sigurjón Árnason, þáverandi bankastjóri Landsbankans, hafði reynt að telja honum trú að framtíð hans lægi hjá Landsbankanum, þá ákvað Styrmir Þór að taka stökkið. MP banki var á þessum tíma lítill banki sem sérhæfði sig í eignastýringu og verðbréfamiðlun.
„Þetta var mikið ævintýri, mjög skemmtilegt verkefni og heilmikið starf. Það var mikill vöxtur í þessum geira akkúrat á þessum árum, frá 2006 til 2008, þar til fjármálahrunið á sér síðan stað.“
Svaf varla í 2-3 vikur
Þótt blikur hefðu verið á lofti þá hvarflaði aldrei að Styrmi að allar stærstu fjármálastofnanir landsins yrðu gjaldþrota. MP banki hafði verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera búinn að selja öll hlutabréf í safninu sínu og dregið úr útlánahættu eins og unnt var.
Hann lýsir því að stjórnendur minni banka á borð við MP banka hafi ekki verið í nærri jafn miklum samskiptum við stjórnvöld varðandi stöðu mála og aðgerðir, líkt og forsvarsmenn stærri bankana. Líkt og þekkt er, þá voru lán stórra íslenskra fjárfestingarfélaga gjaldfelld eftir lækkanir á hlutabréfamörkuðum. Íslensku bankarnir tóku fjármögnunina að hluta á eigin bækur til þess að reyna að bæta stöðuna.
„Ég held að það hafi ekki nokkur maður verið að reyna að gera eitthvað af sér þarna. Ég held að menn hafi fyrst og fremst verið að reyna að bjarga því sem bjargað varð - reyna að halda skipinu fljótandi.“
Hann ákvað í maí 2009 að láta af störfum hjá MP banka þegar hann metur stöðuna þannig að bankinn muni lifa af. Starfið hafi reynt gríðarlega á og nefnir hann sérstaklega þegar horfur á fjármálamörkuðum voru orðnar mjög svartar eftir fall Lehman Brothers og fram að því að Fjármálaeftirlitið tók yfir stærstu fjármálastofnanir landsins.
„Þetta er bara svona ástand þar sem maður... ég held að flestir átti sig ekki á áfallinu og stressinu sem fylgir svona löguðu. Ég held að ég hafi ekki sofið í 2-3 vikur þarna. Maður bara liggur andvaka í rúminu og hausinn á manni er bara að velta fyrir hvernig getur maður reynt að bjarga hlutunum,“ segir Styrmir og bætir við að tilhugsunin um að geta mögulega ekki greitt starfsfólki laun hafi verið óhugnanleg.
Stoltastur af Arctic Adventures á sínum ferli
Þegar líða tók á dvöl hans á Kvíabryggju hugsaði Styrmir með sér einn morguninn að hann þyrfti að finna sér eitthvað nýtt að gera.
„Meðfram því að fá svona dóm þá er maður náttúrulega tekinn úr leik í fjármálageiranum. Ég var búinn að starfa mjög lengi þar og er sérmenntaður [á þessu sviði],“ segir hann. „Það var útilokað fyrir mig að fá vinnu í þeim geira.“
Styrmir segist hafa verið búinn að hugleiða að fara inn í atvinnugrein þar sem mikill vöxtur væri fyrirséður og ætti eftir að dafna. Þar hafi ferðaþjónustan verið spennandi vettvangur en innviðir fyrirtækja í greininni voru enn takmarkaðir og lítil samþjöppun hafði átt sér stað.
„Eitt sem spilaði líka inn í að velja ferðaþjónustuna var að miðað við andrúmsloftið í samfélaginu þá hafði ég áhuga á að fara inn í fyrirtæki sem var að versla við útlendinga en ekki bara við Íslendinga [...] Þá er maður ekki að fara með sama hætti á milli tannana á fólki í kjölfar hrunsins. Þetta var einn varnagli sem maður setti sem hluta af því að velja sér nýjan starfsvettvang.“
Í árslok 2013 keypti Styrmir Þór Trek ferðir ehf, lítið ferðaþjónustufyrirtæki sem sérhæfði sig í gönguferðum, sem sameinaðist síðan Arctic Adventures árið 2015. Hann var stjórnarmaður í og einn af stærstu hluthöfum sameinaðs félags og var síðan forstjóri félagsins frá árinu 2019 fram í janúar 2022. Arctic Adventures er í dag eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins en félagið velti yfir 5 milljörðum króna í fyrra.
„Að vera þátttakandi ásamt mínum félögum í Arctic Adventures að búa til eitt öflugasta ferðaþjónustufyrirtæki á Norðurslóðum - og ekki bara það, þetta er alvöru fyrirtæki á heimsvísu. Það eru ekkert mörg fyrirtæki sem eru það á Íslandi. Það er kannski það sem stendur upp úr, að maður fór inn í það verkefni með ákveðna hugmyndafræði og maður kláraði það, lokaði því og maður gengur sáttur frá borði.“
Styrmir Þór seldi nýlega eignarhlut sinn í Arctic Adventures. Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um á dögunum kom hann að að stofnun nýs ferðaþjónustusjóðs hjá Pt. Capital sem vinnur nú að því að byggja upp Stellar Collection, nýja samstæðu ferðaþjónustufyrirtækja í Alaska. Styrmir Þór er stjórnarformaður samstæðunnar.