Netvangurinn Hoobla skilaði 230 milljónum króna í tekjur árið 2024 en fyrirtækið sérhæfir sig í að styðja við og hjálpa sérfræðingum að finna verkefni ásamt því að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum að finna sérfræðinga.

Hoobla var stofnað 17. júní 2021 af Hörpu Magnúsdóttur en hún segir að það hafi þótt við hæfi að stofna fyrirtæki á sjálfstæðisdegi Íslendinga þar sem Hooble veitir sjálfstætt starfandi sérfræðingum verkefni.

Í dag veitir Hoobla viðskiptavinum aðgang að yfir 600 sérfæðingum sem taka að sér tímabundin verkefni og hlutastörf. Þá þjónustar Hoobla yfir 300 íslensk fyrirtæki, stofnanir og sveitafélög.

Harpa segir í samtali við Viðskiptablaðið að hvergi á Íslandi hafi fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög jafn greiðan aðgang að hæfum sérfræðingum og hafa margir af þeim nýtt Hoobla sem stökkpall út í það líf.

„Það fer af stað ákveðin bylgja þarna í Covid og fóru þá margir að endurhugsa líf sitt. Hoobla kemur inn í þá bylgju og var þarna ákveðinn meðbyr í byrjun. Síðan breytast hlutirnir og margir fara aftur í launuð störf en við sáum það líka að það var ákveðið ákall frá atvinnulífinu fyrir svona sjálfstætt starfandi fólk.“

Hoobla hlaut einnig 20 milljóna króna styrk frá Tækniþróunarsjóði fyrir 2023-2024 til þróunar að Hoobla-hugbúnaðinum, sem er innbyggður inn í vef fyrirtækisins.

„Hugbúnaðurinn einfaldar ferlið fyrir fyrirtæki til að tengja saman sérfræðinga við þau verkefni sem þau eru með og byggist hugbúnaðurinn í raun á ferlum sem ég hafði verið að byggja upp síðan 2021.“

Á Íslandi eru nú þrír netvangar sem bjóða upp á þjónustu sjálfstætt starfandi einstaklinga en það eru Hoobla, Giggó og Wolt.

Wolt býður fólki að taka að sér að keyra út matvæli til einstaklinga, Giggó býður upp á ýmsa þjónustu, eins og til dæmis þrif á heimilum, búslóðaflutninga, iðnaðarmenn, veislustjóra o.fl.

Harpa segir að ólíkt þessum tveim netvöngum sé Hoobla sérhæfi sig í að bjóða upp á þjónustu sérfræðinga, stjórnenda og ráðgjafa og sé þá eingöngu starfandi á fyrirtækjamarkaði. Það gætu þá verið sérfræðingar á sviði fjármála og reksturs, mannauðsmála, gæðamála, verkefnastjórnunar og stjórnendaráðgjafar o.fl.

„Það eru í raun engir Íslendingar inni á erlendum netvöngum vegna þess að við getum ekki keppt á þessum erlendu verðum. Með því að leita til Hoobla þá ertu að leita að sérþekkingu sem er til á Íslandi og þú vilt hafa greiðan aðgang að.“