Íslandsvinurinn Carmen Elena Salazar frá El Salvador segir í viðtali við Viðskiptablaðið að hún hefði aldrei getað ímyndað sér árangurinn sem þjóð hennar hefur náð undir stjórn núverandi forseta, Nayib Bukele. Hún segir götur landsins loks öruggar eftir áratuga langa glæpaólgu og borgarastyrjöld, spítalar hafa verið endurnýjaðir og íbúar eru nú að stofna fyrirtæki sem aldrei fyrr.

Carmen Elena fæddist í El Salvador árið 1984 í miðri borgarastyrjöld. Stríðið hófst árið 1979 og lauk svo árið 1992 með undirritun friðarsáttmála í Mexíkó. Hátt í 80 þúsund manns létu lífið í átökum milli ríkisstjórnarinnar, sem studd var af Bandaríkjunum, og skæruliða, sem nutu stuðnings frá Kúbu og Níkaragva.

„Börn fóru í skólann í miðjum skothríðum. Fólk fór í vinnuna á miðjum skothríðum. Margir muna eftir því að hafa farið út úr húsi á morgnana og það fyrsta sem blasti við þeim voru lík beint fyrir utan hurðina hjá sér,“ segir Carmen.

Á stríðsárunum áttu flestar orrustu stað í fjöllunum fyrir utan höfuðborgina, San Salvador. Hægrisinnaða ríkisstjórnin og þá sérstaklega flugher landsins nutu mikils stuðnings frá Bandaríkjunum en um miðjan níunda áratug fóru orrusturnar að færast á götur höfuðborgarinnar.

Eitt fjöldamorð á fætur öðru

Hún segir að tímamót hafi átt sér stað þegar hermenn ríkisstjórnarinnar hafi drepið fjölda prófessora og jesúíta við UCA-háskólann þar sem þeir voru álitnir sem stuðningsmenn kommúnistanna. „Það var mjög stórt vegna þess að jesúítarnir voru ekki frá El Salvador, heldur voru þeir Spánverjar.“

Einn af þeim sem talinn var hafa fyrirskipað það fjöldamorð var Alfredo Cristiani, sem síðar meir varð forseti landsins árið 1989. Hann er enn eftirlýstur á Spáni fyrir morðin og hefur spænska ríkisstjórnin farið fram á að hann verði framseldur.

Skæruliðarnir ákváðu að hefna fyrir fjöldamorðið með skotárás og myndu foreldrar Carmen bæði verða vitni að því.

Þann 19. júní 1985 réðst hópur skæruliða á Zona Rosa veitingastaðinn í miðborg San Salvador. Tólf manns létu lífið, þar af fjórir bandarískir landgönguliðar, tveir bandarískir kaupsýslumenn, einn frá Gvatemala, einn frá Sjíle og fjórir heimamenn. Fjórir voru handteknir þremur mánuðum seinna en sjö aðrir sem tóku þátt ganga enn lausir.

„Þeir byrjuðu að úða veitingastaðinn með byssuskotum“

„Foreldrar mínir voru að fagna því að mamma mín hafði loksins verið ráðin sem arkitekt. Í El Salvador er hefði fyrir því að fara út að borða og fá sér drykki þegar þú færð nýtt starf. Það kallast La Culebra, eða Snákurinn og fóru foreldrar mínir með bestu vini þeirra til að fagna því.“

Á veitingastaðnum voru bæði borð inni og úti og ákváðu fjórmenningarnir að setjast úti. Þau sátu beint við hlið bandarísku landgönguliðanna og um klukkan hálf tíu að kvöldi til sá móðir hennar nokkra skæruliða stíga út úr pallbílum með AK-47 byssur og áður en hún vissi af því hófst skothríð.

„Þeir byrjuðu að úða veitingastaðinn með byssuskotum. Aðalskotmarkið voru landgönguliðarnir en það dóu margir þarna í kring og slösuðust enn fleiri. Pabbi minn faldi sig undir borðið og mamma mín fór bak við vegginn þannig að þeir sæju ekki til hennar, en hún sá þá.“

Móðir Carmen slapp undan skæruliðunum með því að skríða út um glugga veitingastaðarins.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Hún lýsir grimmdinni sem átti sér stað og segir að einn skæruliðanna hafi meðal annars haldið áfram að skjóta einn landgönguliðann eftir að hann var látinn. Þar sem skæruliðarnir voru einnig grímulausir sögðust þeir þurfa að taka af lífi alla sem urðu vitni að morðunum.

„En hvernig ætlar þú að fara að því? Þetta var bara eins og á Laugaveginum. Það sáu þetta allir! Þeir byrjuðu samt að aflífa þá sem voru særðir og mamma sá þetta allt. Hún myndi þekkja hvern einasta mann enn þann dag í dag“ og segist sannfærð um að einn hafi verið einstaklingur sem myndi síðar meir verða háttsettur embættismaður í landinu.

Skiptu einu helvíti út fyrir annað

Árið 1992 var friðarsamkomulag undirritað og í því samkomulagi var meðal annars ákveðið að ákæra ekki neinar hliðar fyrir fyrrum glæpi. Skæruliðahóparnir fimm sameinuðust í einn stjórnmálaflokk sem kallaðist FMLN og var reynt að byggja upp landið á ný.

Vaxandi vandamál myndi hins vegar herja á El Salvador og kom það vandamál óbeint frá Bandaríkjunum, nánar til tekið Los Angeles.

„Á stríðsárunum flúðu mörg börn frá El Salvador til Bandaríkjanna og voru mörg þeirra ekki með nein tækifæri eða menntun. Á götum Los Angeles fóru margir ungir strákar á aldrinum 13-21 árs að flækjast í glæpagengi og þar byrjuðu þessi frægu gengi á borð við MS-13 og 18th Street. Það sem gerðist var að margir þeirra sem voru handteknir voru sendir aftur til El Salvador, en þegar þeir lentu þá var þeim bara sleppt.“

Carmen segir að þessi þróun sem átti sér stað yfir marga áratugi hafi orðið til þess að El Salvador breyttist í eitt hættulegasta ríki heims. Gengin hafi oftast verið í því að drepa hvorn annan en hinn almenni íbúi í El Salvador hafi oft lent í klóm þeirra og voru þeir duglegir að innheimta verndunarfé frá fyrirtækjaeigendum.

Tugir þúsunda ungra karlmanna hafa verið handteknir og fangelsaðir á tímabili Bukele.
© epa (epa)

Nýr forseti, ný framtíð

Árið 2019 var svo Nayib Bukele kosinn forseti El Salvador. Carmen segir að á þeim tíma hafi margir verið með efasemdir um að hann gæti tekist á við glæpaólguna þar í landi. Fyrsta árið sem hann var forseti hríðféll morðtíðnin í El Salvador um 50% og segir hún að þjóðin sé rosalega ánægð með nýja forsetann og hvernig hann hefur tekið á glæpagengjum landsins.

Samkvæmt könnun frá því í mars segjast 70% þjóðarinnar styðja forsetann til endurkjörs þrátt fyrir að stjórnarskrá landsins kveði á um að forseti geti ekki setið fleiri en eitt kjörtímabil. Hann hefur þegar tilkynnt að hann muni bjóða sig fram en tugir þúsunda ungra karlmanna hafa verið handteknir og fangelsaðir á tímabili hans. Mannréttindasamtök hafa hins vegar lýst yfir áhyggjum af þróuninni í ríkisstjórn Bukele.

Nayib Bukele hefur nú verið forseti El Salvador í fjögur ár.
© epa (epa)

„Allir eru ánægðir! Málið er að ef þú myndir fá einn af þessum glæpamönnum til að játa allt sem þeir hafa gert þá hafa þeir örugglega drepið meira en 15 manns. Heldur þú að slík manneskja eigi enn skilið mannréttindi? Eftir allar þessar nauðganir og öll þessi morð? Þau hafa einnig ýtt undir frekari flótta til Bandaríkjanna því gengin eru mjög oft í því að stela húsnæði frá fólki.“

Hún bætir við að margir séu ánægðir með stjórnarhætti Bukele og að hann hafi staðið sig vel í að bæta heilbrigðiskerfið og innviði landsins. „Fólk getur nú bara farið inn á spítala og fætt börn að kostnaðarlausu. Þetta er eitthvað sem enginn í El Salvador hefði getað ímyndað sér að væri hægt. Áður fyrr þurfti maður að borga sjálfur fyrir heilbrigðistækin.“

Carmen segir í lokin að efnahagur landsins sé einnig á mikilli uppleið og að þökk sé góðum stjórnarháttum Bukele hafi mörg fyrirtæki verið stofnuð á tímum heimsfaraldurs. Eitt af stærstu tæknifyrirtækjum landsins, Hugo, var til að mynda selt fyrir 115 milljónir Bandaríkjadala.

„Maður hefði aldrei ímyndað sér að svona væri hægt í El Salvador fyrir nokkrum árum síðan, en hún er það hægt. Þú sérð loksins alvöru von í augum fólks að hvað sem þú vilt gera þá muni það ganga upp.“