Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segir að það hafi verið ákvörðun landlæknis að stefna heilbrigðistæknifyrirtækinu Köru Connect vegna úrskurðar kærunefndar útboðsmála í máli fyrirtækisins gegn embættinu, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Origo og Sensa.
„Útboðsnefnd gerir athugasemdir og í þessu tilviki þá verð ég að segja að það var ákvörðun landlæknis að láta reyna á það mál fyrir dómi,“ segir Willum í samtalsþætti SVÞ fyrir kosningar.
„Þar þurfum við aðeins að horfa inn í lögin. Af því að er eðlilegt, eins og í því tilviki, að vera raunverulega að neyða stofnunina til þess að stefna viðkomandi aðila? Að það sé ekki hægt að leita annarra leiða til að finna út úr hlutunum. Það fannst mér miður en það er ákvörðun landlæknis.“
Kara Connect kærði innkaup landlæknis af Origo og Sensa árið 2022 vegna þróunar Heklu heilbrigðisnets og Heilsuveru. Kara taldi að viðskiptin væru það umfangsmikil að það væri í andstöðu við lög um opinber innkaup að ekkert útboð hefði farið fram.
Kærunefnd útboðsmála komst að þeirri niðurstöðu að innkaupin hefðu verið ólögmæt og sektaði landlæknisembættið um 9 milljónir króna. Auk þess þurfti embættið að greiða 2 milljónir í málskostnað til Köru Connect.
Í úrskurðinum kemur fram að svo áætla megi að umrædd innkaup yfir 48 mánaða tímabil nemi mörg hundruð milljóna króna fyrir hvert kerfi fyrir sig. „Telst því virði innkaupanna fara langt yfir viðmiðunarmörk, óháð því hvort horft sé til einstakra kerfa eða þeirra allra í einu.“
Landlæknisembættið svaraði með því að stefna sprotafyrirtækinu fyrir dómi. Í yfirlýsingu sem embætti landlæknir sendi frá í kjölfarið sagðist það ekki gera athugasemdir við kæru fyrirtækisins heldur úrskurð kærunefndar útboðsmála en leikreglurnar séu því miður þannig að ekki sé heimilt að stefna kærunefndinni.
„Embætti landlæknis telur að ógerlegt sé að útfæra úrskurðarorð kærunefndar auk þess sem þau kalli á kostnað sem kann að hlaupa á hundruðum milljóna króna. Embætti landlæknis finnst því mikilvægt að skorið verði úr um m.a. túlkun og beitingu laga um opinber innkaup varðandi samninga þá sem embættið, og heilbrigðisráðuneytið þar á undan, gerðu áður en þau lög tóku gildi,“ segir í yfirlýsingu embættisins.
Willum sagði í þætti SVÞ að málið sé á lokametrunum hjá dómstólum.
Dagný Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Orkuhússins, var gestur ásamt Willum í þættinum. Hún tók undir að það hafi verið óheppilegt hvernig þetta mál fór og telur að frekar hefði átt að leita leiða til að ná sáttum og semja í stað þess að fara með málið fyrir dómstóla. Það skapi t.d. óvissu fyrir önnur heilbrigðisfyrirtæki um hvernig næstu samningar muni líta út.
Ber fyrir sig fjölda samninga hjá Sjúkratryggingum
Willum sagði umhverfið og regluverkið í kringum útboð hins opinbera flókið og það beri að hafa í huga í umræðum um þessi mál.
Hann tjáði sig einnig stuttlega um 41 milljónar króna stjórnvaldssekt sem Sjúkratryggingar fengu á sig með nýlegum úrskurði kærnunefndar útboðsmála vegna ólögmætra samninga við myndgreiningarfyrirtæki.
„Ég nefni svona nýlegt dæmi gagnvart Sjúkratryggingum sem er bara það nýlegt að við erum að rýna þann dóm eða úrskurð. En það er ekki óeðlilegt að við erum að gera einhverja 400 samninga Sjúkratrygginga í opinbera tryggingakerfinu okkar um alls konar þjónustu og við erum búin að búa svo um með lögum að í okkar félagslega heilbrigðiskerfi og í opinberri fjármögnun að það séu gerðir samningar óháð rekstrarforminu við alla aðila um alla þjónustu.
Það gleymist nú að við erum að gera þjónustusamninga við spítalana af því að við viljum auka gagnsæið í fjármögnun á spítalanum með þjónustutengdri fjármögnun. Þar eru gerðir samningar sem eru bara farnir að virka og eru mjög hvetjandi - af því við byrjuðum samtalið á því um aðgengi að þjónustu og þessari samvinnu í öllu kerfinu - það gerir það að verkum að við sjáum betur hvar er hægt að svona útvista, eins og var nefnt áður, aðgerðum og nýta allt kerfið okkar eins og Orkuhúsið og fleiri aðila.“