Danskir fjár­festar furða sig á ákvörðun danska ríkisins að af­skrá ekki Kaup­manna­hafnar­flug­völl úr kaup­höllinni eftir að ríkið eignaðist 98,6% hlut.

Hluta­bréfa­verð Kastrup-flug­vallar í Kaup­höllinni í Kaup­manna­höfn hefur hækkað um rúm 60% á tveimur við­skipta­dögum eftir að danska ríkið keypti 59,4% hlut í flug­vellinum á mánu­daginn.

Ríkið átti fyrir 39,2% hlut í flug­vellinum og eignaðist þar með 98,6% hlut.

Samkvæmt tilkynningu frá fjármálaráðuneyti Danmerkur borgaði ríkið um 32 milljarða danskra króna, eða sem nemur ríflega 625 milljörðum íslenskra króna fyrir hlutinn.

Sam­kvæmt danska við­skipta­miðlinum Børsen eru fjár­festar æfir yfir því að ríkið ætli ekki að af­skrá flug­völlinn en Kastrup er stór hluti af dönsku úr­vals­vísitölunni OMXC25 oen seljan­leiki bréfanna er nú afar lítill.

„Mér fannst þetta mjög sniðug við­skipti alveg þangað til ég sá að það voru engar áætlanir um að af­skrá félagið. Það hefði átt að vera búið að af­skrá flug­völlinn fyrir löngu,“ segir Lars Hytting fjár­festinga­stjóri fjár­festingafélagsins Arthascope.

Flot hluta­bréfa í Kastrup, magn bréfa sem gengur kaupum og sölum í virkum við­skiptum á hverjum tíma, verður nú það minnsta í dönsku kaup­höllinni eða einungis um 1,4%,

Meðaltalið hjá skráðum félögum í dönsku kaup­höllinni er í kringum 65%.

Sam­kvæmt Hytting hefur flot Kastrup verið vanda­mál lengi og því hefði átt að vera löngu búið að af­skrá flug­völlinn.

Þegar flotið er lítið er auðveldara að hafa áhrif á gengi bréfanna með litlum viðskiptum.

Ríkið keypti á mánu­daginn hluti sem höfðu verið í eigu ATP, stærsta líf­eyris­sjóðs Dan­merkur, og kana­díska líf­eyris­sjóðsins. OTPP.

ATP varð stærsti hlut­hafi flug­vallarins árið 2017, þegar sjóðurinn ásamt OTPP, keyptu hlut ástralska eignastýringarfélagsins Macqu­ari­e Group.

Frá árinu 2017 og fram að við­skiptum danska ríkisins hafði hluta­bréfa­verð flug­vallarins lækkað um 35%.

Fjár­málaráðu­neyti Dan­merkur sagði í til­kynningu á mánu­daginn að horft yrðir til þess til lengri tíma að minnka eignar­hlutinn niður í 50,1%.

Sam­kvæmt Børsen hefur fjár­málaráðu­neytið ekki svarað fyrir­spurnum dönsku Kaup­hallarinnar um af hverju er ekki standi til að af­skrá flug­völlinn.