Danskir fjárfestar furða sig á ákvörðun danska ríkisins að afskrá ekki Kaupmannahafnarflugvöll úr kauphöllinni eftir að ríkið eignaðist 98,6% hlut.
Hlutabréfaverð Kastrup-flugvallar í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn hefur hækkað um rúm 60% á tveimur viðskiptadögum eftir að danska ríkið keypti 59,4% hlut í flugvellinum á mánudaginn.
Ríkið átti fyrir 39,2% hlut í flugvellinum og eignaðist þar með 98,6% hlut.
Samkvæmt tilkynningu frá fjármálaráðuneyti Danmerkur borgaði ríkið um 32 milljarða danskra króna, eða sem nemur ríflega 625 milljörðum íslenskra króna fyrir hlutinn.
Samkvæmt danska viðskiptamiðlinum Børsen eru fjárfestar æfir yfir því að ríkið ætli ekki að afskrá flugvöllinn en Kastrup er stór hluti af dönsku úrvalsvísitölunni OMXC25 oen seljanleiki bréfanna er nú afar lítill.
„Mér fannst þetta mjög sniðug viðskipti alveg þangað til ég sá að það voru engar áætlanir um að afskrá félagið. Það hefði átt að vera búið að afskrá flugvöllinn fyrir löngu,“ segir Lars Hytting fjárfestingastjóri fjárfestingafélagsins Arthascope.
Flot hlutabréfa í Kastrup, magn bréfa sem gengur kaupum og sölum í virkum viðskiptum á hverjum tíma, verður nú það minnsta í dönsku kauphöllinni eða einungis um 1,4%,
Meðaltalið hjá skráðum félögum í dönsku kauphöllinni er í kringum 65%.
Samkvæmt Hytting hefur flot Kastrup verið vandamál lengi og því hefði átt að vera löngu búið að afskrá flugvöllinn.
Þegar flotið er lítið er auðveldara að hafa áhrif á gengi bréfanna með litlum viðskiptum.
Ríkið keypti á mánudaginn hluti sem höfðu verið í eigu ATP, stærsta lífeyrissjóðs Danmerkur, og kanadíska lífeyrissjóðsins. OTPP.
ATP varð stærsti hluthafi flugvallarins árið 2017, þegar sjóðurinn ásamt OTPP, keyptu hlut ástralska eignastýringarfélagsins Macquarie Group.
Frá árinu 2017 og fram að viðskiptum danska ríkisins hafði hlutabréfaverð flugvallarins lækkað um 35%.
Fjármálaráðuneyti Danmerkur sagði í tilkynningu á mánudaginn að horft yrðir til þess til lengri tíma að minnka eignarhlutinn niður í 50,1%.
Samkvæmt Børsen hefur fjármálaráðuneytið ekki svarað fyrirspurnum dönsku Kauphallarinnar um af hverju er ekki standi til að afskrá flugvöllinn.