Bjarni Benediktsson, fyrrverandi forsætis- og fjármálaráðherra, fagnar því að niðurstaða hafi fengist hjá samninganefndum fjármálaráðuneytisins og lífeyrissjóða um tillögu umuppgjör Íbúðabréfa ÍL-sjóðs, gamla Íbúðalánasjóðs.
„Það er óskandi að málið fái lendingu í framhaldinu hjá þeim sem halda á kröfunum og í þinginu,“ segir Bjarni í færslu á Facebook um þetta „stóra hagsmunamál, sem ég taldi óforsvaranlegt annað en að setja á dagskrá og fá lausn á“.
Í gærmorgun var tilkynnt um að viðræðunefnd fjármálaráðherra og ráðgjafar 18 lífeyrissjóða hefðu saman mótað tillögur um uppgjör HFF-bréfa sem muni greiða fyrir slitum ÍL-sjóðs. Virði HFF-bréfanna í uppgjörinu er metið 651 milljarður króna og er m.a. lagt til að ríkissjóður gefi út og afhendi kröfuhöfum ríkisskuldabréf að andvirði 540 milljarða króna.
Í færslunni bregst Bjarni við ákveðnum fréttaflutningi sem hefur gefið til kynna að hann hafi á sínum tíma reynt að slíta ÍL-sjóði sama hvaða.
„Það verður vonandi ljóst þeim sem hafa fyrir því að kynna sér málið að samningaleið í þessu máli var frá upphafi að mínu mati farsælust, þótt það hafi tekið langan tíma að koma þeim viðræðum af stað enda hagsmunir miklir á alla kanta,“ segir Bjarni.
„Frumvarp um almenna lagaheimildir fyrir ríkið til að slíta sjóðum sem þessum ætti að mínu mati að koma fram, algerlega óháð niðurstöðu þessa máls. Það er mikilvægt til framtíðar, jafnvel þótt samið verði um uppgjör og slit ÍL-sjóðs, að lögfesta þær reglur sem er að finna í frumvarpinu.“
Hann vísar í kjölfarið í tilkynningu fjármálaráðuneytisins þar sem fram kemur að áætlað sé að greiðsluflæði ríkissjóðs muni batna á næstu árum, skuldastaða A-hluta ríkissjóðs lækki um a.m.k. 5% af vergri landsframleiðslu, og að ríkisábyrgðir lækki um 88%.
„Það var þá til einhvers að setja málið af stað sýnist mér,” segir Bjarni og endurbirtir um leið tveggja ára gamlan pistil þar sem hann varði aðgerðir sínar í ÍL-málinu.