Magnús Harðar­son, for­stjóri Kaup­hallarinnar, segir að sam­bæri­legar hvatar og eru að finna í Sví­þjóð til að auka þátt­töku al­mennings á hluta­bréfa­markaði hafi verið til staðar á Ís­landi. Þeir voru hins vegar af­numdir skömmu eftir alda­mótin.

Financial Times fjallaði í morgun um á­stæður þess að sænsku Kaup­höllinni vegnar mun betur en öðrum í Evrópu en Svíar hafa m.a. unnið mark­visst að því að auka þátt­töku al­mennings á hluta­bréfa­markaði í marga ára­tugi.

Árið 1984 kynnti sænska ríkis­stjórnin til leiks reikninga sem heita Alle­mans­spar, sem laus­lega þýðist sem spari­fé hins venju­lega manns, sem voru gerðir til að auð­velda Svíum að fjár­festa í hluta­bréfum.

Árið 1990 var þegar búið að stofna 1,7 milljón slíka reikninga en sama ár gekk í gegn reglu­breyting sem leyfir Svíum að fjár­festa 2,5% af líf­eyris­sparnaði sínum eftir eigin höfði.

Frá árinu 2012 hefur al­menningur í Sví­þjóð ekki þurft að til­kynna allar breytingar á hluta­bréfa­eign sinni.

Skattur er ekki greiddur af sölu­hagnaði eða arð­greiðslum heldur er einungis greiddur 1% skattur af heildar­virði hluta­bréfa­eignarinnar.

Magnús segir þetta dæmi um hvernig Svíum hefur tekist að ein­falda hlutina og minnka skrif­finnsku í tengslum við hluta­bréfa­kaup og skatta­skil.

Pólitískur vilji allt sem þarf

Spurður um hvað sé því til fyrir­stöðu að fara í sam­bæri­legar að­gerðir hér­lendis, segir Magnús í raun ekkert.

„Ég held að í grund­vallar­at­riðum sé ekki mikið því til fyrir­stöðu. Það þarf pólitískan vilja og stuðning við það að breyta og koma til dæmis á skatta­legum hvötum,“ segir Magnús spurður um hvað sé því til fyrir­stöðu að fara sömu leið og Svíarnir í þessum efnum.

„Þessir skatta­legu hvatar eru mjög öflugir í Sví­þjóð og við höfum svo­lítið haldið þeim á lofti. Þó er ekki lykil­at­riði að þeir verði ná­kvæm­lega eins og í Sví­þjóð en fyrir­komu­lagið þar er mjög fínt. Það voru mjög öflugir hvatar hér heima áður fyrr en þeir voru af­numdir um alda­mótin,“ segir Magnús.

Svíar forðast skriffinsku

Magnús segir hvatana í Sví­þjóð þess eðlis að þú greiðir skattinn af í­myndaðri á­vöxtun af reikningi sem miðast við álag á ríkis­bréf. Árið 2024 var þetta 1% af heildar­virði hluta­bréfa­eignar í stað þess að greiða skatt af sölu­hagnaði eða arði.

„Sænska kerfið hefur þá kosti að það eru skatta­legir hvatar til að kaupa í hluta­bréfum en svo er það mjög ein­falt í út­færslu. Þú þarft ekki að halda utan um kaup og sölu heldur snýst þetta bara um stöðuna á reikningum á á­kveðnum tíma. Það er ekki mikil skrif­finnska í kringum það,“ segir Magnús.

„Við höfum notað sænska módelið sem fyrir­mynd hér heima vitandi hversu vel það hefur gengið. Það er mögu­lega verið að stíga skref í þessa átt hérna með frum­varpi um frjálsari ráð­stöfun á líf­eyris­sparnaði þar sem opnað er fyrir þann mögu­leika að sjóðs­fé­lagar geti sjálfir fjár­fest í til­teknum verð­bréfa­sjóðum sem líf­eyris­sjóðirnir bjóða upp á.“

Þrátt fyrir krefjandi markaðs­að­stæður á síðasta ári var fjöldi ein­stak­linga sem eiga hluta­bréf skráð á Nas­daq Iceland hluta­bréfa­markaðnum í lok síðasta árs nær ó­breyttur frá fyrra ári, eða í kringum 30,5 þúsund.

Þátt­taka al­mennings á hluta­bréfa­markaðnum jókst um­tals­vert á árunum 2019 til 2022, m. a. vegna lækkunar á stýri­vöxtum og fjölgunar fé­laga í Kaup­höllinni.

Ein­stak­lingum sem eiga skráð hluta­bréf í Kaup­höllinni fjölgaði úr 8 þúsund í yfir 30 þúsund talsins á þessu tíma­bili. Þar munaði hvað mestu um al­mennt hluta­fjár­út­boð Icelandair í septem­ber 2020 og frumút­boð Ís­lands­banka sumarið 2021.

Magnús segir mjög mikil­vægt að al­menningur sjái hag sinn af því að taka þátt í hluta­bréfa­við­skiptum.

„Þó að stærðar­gráðan, ef við miðum við við­skipti hjá kollegum okkar hjá Nas­daq á Norður­löndunum, virkar ekkert sér­lega mikil. Við­skipti ein­stak­linga þar eru um 10% af veltunni en mun hærri í litlum og meðal­stórum fyrir­tækjum. Þetta er samt alveg gríðar­lega mikil­vægur grunnur. Þetta hjálpar svo seljan­leika og laðar aðra fjár­festa að markaðinum. Þetta er einnig mjög hjálp­legt fyrir minni fyrir­tæki sem eiga erfiðara með að sækja fé hjá stórum stofn­fjár­festum. Þátt­taka ein­stak­linga getur því leyst úr læðingi mikil­væga krafta í efna­hags­lífinu öllum til hags­bóta.

Minni þátt­taka stórra fjár­festa í litlum og meðal­stórum fyrir­tækjum helgast ekki af því að þau séu verri fjár­festing heldur af því að á­reiðan­leika­könnun getur verið dýr fyrir stóra fjár­festa sem þurfa að fram­kvæma nánast sömu á­reiðan­leika­könnun á minni og stórum fyrir­tækjum. Það verður þá hlut­falls­lega dýrt,“ segir Magnús.

Hann segir það ekki hafa verið ofar­lega á for­gangs­lista stjórn­valda í gegnum tíðina að auka þátt­töku al­mennings á hluta­bréfa­markaði en slíkt sé þó mikil­vægt.

Á þessu eru þó undan­tekningar og ný­legt frum­varp um frjálsari ráð­stöfun við­bótar­líf­eyris­sparnaðar er eftir­tektar­verð við­leitni til þess að auka þátt­tökuna.