Sigurður Hannes­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka iðnaðarins, segir Höllu Hrund Loga­dóttir orku­mála­stjóra efna til ó­þarfa á­taka um sam­eigin­leg mark­mið í orku­málum í ný­ár­s­pistli sínum á Vísi.is

„Orku­mála­stjóri fer mikinn í ný­ár­s­pistli sínum sem birtist í morgun og efnir til ó­þarfa á­taka um mark­mið sem eiga að vera sam­eigin­leg - að auka vægi grænnar orku á Ís­landi. Í greininni er kvartað undan mál­efna­legri um­ræðu um orku­mál á Ís­landi, um­ræðu sem er löngu tíma­bær með hlið­sjón af þeirri al­var­legu stöðu sem uppi er,” segir Sigurður.

„Í lýð­ræðis­sam­fé­lagi er ekki bara eðli­legt heldur nauð­syn­legt að skiptast á skoðunum. Í grein sinni býr orku­mála­stjóri til strámann sem hún fellir svo en það er hins vegar ljúft og skylt að leið­rétta helstu rang­færslur um af­stöðu Sam­taka iðnaðarins (SI) sem fram koma í um­ræddri grein.”

„Ráðast þarf að rót vandans”

Sigurður segir stöðuna í orku­málum á Ís­landi al­var­lega eftir kyrr­stöðu um ára­bil.

„Meiri olíu var brennt hér á landi á ný­liðnu ári en árin áður með til­heyrandi aukinni losun gróður­húsa­loft­tegunda. Þriðja veturinn í röð eru skerðingar á af­hendingu raf­orku og tjónið vegna tapaðra út­flutnings­tekna er mælt í tugum milljarða. Einnig hefur verið bent á að þröng staða í raf­orku­málum hamlar at­vinnu­upp­byggingu um allt land. Við þessari stöðu er bara ein raun­veru­leg lausn. Ráðast þarf að rót vandans og virkja meiri endur­nýjan­lega orku og efla flutnings­kerfið til að mæta þörfum sam­fé­lagsins alls.”

„SI hafa í nokkur ár vakið at­hygli á þessari stöðu og varað við af­leiðingum hennar. Ráð­herra orku­mála og þingið hafa á þessu kjör­tíma­bili gert sitt með af­greiðslu ramma­á­ætlunar og með öðrum verk­efnum sem miða málum í rétta átt. Orku­mála­stjóri gegnir lykil­stöðu við að rjúfa kyrr­stöðuna í krafti em­bættis síns. Því miður hefur of lítið gerst eins og sjá má af ferlinu í kringum Hvamms­virkjun sem hefur verið á teikni­borðinu í kringum tvo ára­tugi og form­lega á borði Orku­stofnunar í nokkur ár,” skrifar Sigurður.

Sigurður segir frum­varp um skömmtun raf­orku vera ný­lega lagt fram á Al­þingi í þeirri til­raun til að bregðast við stöðunni.

„SI sendu vandaða og ítar­lega um­sögn um málið sem vakti verð­skuldaða at­hygli. Tekið er undir megin­mark­mið frum­varpsins um að gæta þurfi hags­muna al­mennings og ýmsar leiðir settar fram, ó­líkt því sem orku­mála­stjóri heldur fram. “

Í um­sögninni segir orð­rétt:

Það skal tekið fram að SI taka að fullu undir mikil­vægi þess að út­færa við­mið um full­nægjandi raf­orku­öryggi og fram­boð á raf­orku og að skýra þurfi hlut­verk og á­byrgð aðila á raf­orku­markaði við að tryggja raf­orku­öryggi. Þá taka sam­tökin einnig undir að skil­greina þurfi al­þjónustu með full­nægjandi hætti í raf­orku­lögum og hverjir skuli njóta hennar, m. a. í sam­ræmi við reglu­verk EES samningsins hvað það varðar. Þá taka SI heils­hugar undir það sem segir í at­huga­semdum við frum­varpið að staða raf­orku­mála sé erfið og orku­öryggi hér á landi sé mikil­vægt úr­lausnar­efni. Hins vegar telja SI að þær leiðir sem boðaðar eru í fyrir­liggjandi frum­varpi séu síst til þess fallnar að leysa þá al­var­legu stöðu sem uppi er. Þvert á móti munu þær fresta ó­um­flýjan­legum að­gerðum sem taka á hinum raun­veru­lega vanda.

„Hér sést svart á hvítu að SI talar ein­dregið fyrir hags­munum jafnt heimila og fyrir­tækja, þvert á það sem orku­mála­stjóri full­yrðir í sinni grein. Hins vegar verður ekki hjá því litið að frum­varpið var mein­gallað eins og nánar er fjallað um í um­sögn SI og um­sagnir fjölda annarra aðila stað­festa. Því til stað­festingar urðu miklar breytingar á frum­varpinu í með­förum at­vinnu­vega­nefndar,“ skrifar Sigurður.

„SI vísa því al­farið á bug, sem ýjað er að í grein orku­mála­stjóra, að sam­tökin leggist gegn vernd fyrir ís­lensk heimili og fyrir­tæki. SI tala fyrir markaðs­lausnum. Að því sögðu er eðli­legt að skil­greina í lögum hverjir skuli njóta al­þjónustu, s. s. heimili og mikil­vægir inn­viðir, og hafa SI hvatt til þess. En áður en til al­mennrar skömmtunar og hand­stýringar kemur þarf að mati SI að sýna fram á að aðrir mögu­leikar séu ekki til staðar. Ráð­herra brást skjótt við og hefur nú veitt starfs­leyfi til fyrir­tækja sem hyggjast reka markað með raf­orku,” skrifar Sigurður enn frekar.

Þá tala SI ein­dregið fyrir því að ráðist sé að rót vandans og meiri græn raf­orka verði fram­leidd hér á landi.

„Það eru sam­eigin­legir hags­munir alls at­vinnu­lífs og iðnaðar, heimila og sam­fé­lagsins í heild. Það er ekki skýrt hvort Orku­stofnun tali fyrir því nema með skil­yrðum um það hverjir megi kaupa raf­orkuna og hverjir síður og dregur það at­hygli að mögu­legu van­hæfi orku­mála­stjóra. Orku­mála­stjóri segir í grein sinni að SI gagn­rýni um­mæli hennar um að al­menningur fái að njóta raf­orku. Það er ekki rétt og ekki þau um­mæli sem vísað er til,” skrifar Sigurður.

Í upp­haf­legu frum­varpi var gert ráð fyrir því að orku­mála­stjóri hefði heimildir til skömmtunar raf­orku þegar á þyrfti að halda.

„Al­menningur þarf að geta treyst því að em­bættis­menn fjalli um mál á hlut­lægan hátt. Hlut­verk em­bættis­manna er þannig að fram­fylgja settum lögum og reglum við með­ferð mála,“ skrifar Sigurður.

Í um­sögn SI er bent á fjölda um­mæla orku­mála­stjóra þess efnis að beina eigi raf­orku til til­tekinna at­vinnu­greina um­fram aðrar.

„Með hlið­sjón af því að Orku­stofnun fer með eftir­lit á raf­orku­markaði og veitir leyfi þá valda þessi um­mæli að mati SI van­hæfi orku­mála­stjóra til að taka á­kvarðanir eins og ítar­lega er rök­stutt í um­sögn sam­takanna. Í um­sögninni kom fram það sem margir hafa hugsað undan­farin misseri og er það al­var­leg staða. Það segir sína sögu að eftir um­fjöllun at­vinnu­vega­nefndar á­kvað nefndin að fela ráð­herra valdið til skömmtunar, í stað orku­mála­stjóra, af þeirri ein­földu á­stæðu að Orku­stofnun er ekki treyst fyrir þessari miklu á­byrgð, meðal annars vegna fram­göngu orku­mála­stjóra undan­farin ár. Skila­boðin verða ekki mikið skýrari.“

Dregur fyrirtæki í dálka með ummælum sínum

Sigurður segir einnig ó­venju­legt að em­bættis­maður skipi í fylkingar.

„Um­mælum orku­mála­stjóra þess efnis að ekki megi stuðla að sundrung og skipa í fylkingar í orku­málum sem og þeirri ósk að iðnaðurinn blómstri er fagnað. Þetta eru góð skila­boð en þarna kastar em­bættis­maðurinn steini úr gler­húsi. Með um­mælum sínum á síðustu árum hefur orku­mála­stjóri ein­mitt dregið fyrir­tæki í dilka eftir því hvort honum þyki starf­semi þeirra þóknan­leg eða ekki. Í grein sinni í morgun heldur orku­mála­stjóri upp­teknum hætti. Við og þið hugsunin skín þar í gegn. „Venju­leg“ fyrir­tæki eiga að fá raf­orku en ó­ljóst er hvað orku­mála­stjóri sér fyrir sér með hin fyrir­tækin. Með því að skipa fyrir­tækjum í þessar fylkingar, þau „venju­legu“ og svo hin fyrir­tækin, gerir orku­mála­stjóri ein­mitt það sem hann varar við, þ. e. að skipa í fylkingar,“ skrifar Sigurður.

Hægt er að lesa grein Sigurðar í heild sinnihér.