Stjórnunarverðlaun Stjórnvísi voru afhent við hátíðlega athöfn á Grand hótel. Þrír stjórnendur voru verðlaunaðir. Friðrik Þór Snorrason, forstjóri Reiknistofu bankanna í flokki yfirstjórnenda, Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR í flokki millistjórnenda og Jóhannes Ingi Kolbeinsson, stofnandi Kortaþjónustunnar í flokki frumkvöðla.
Borghildur Erlingsdóttir, formaður dómnefndar og forstjóri Einkaleyfastofunnar kynnti niðurstöður dómnefndar. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin.
Stjórnunarverðlaunin eru veitt árlega stjórnendum fyrirtækja sem þykja hafa skarað framúr á sínu sviði. Félagar í Stjórnvísi tilnefna stjórnendur út frá viðmiðum sem sett eru hverju sinni. Síðan tekur dómnefnd við öllum gögnum um tilnefningar og vinnur úr þeim.
Markmið Stjórnunarverðlauna Stjórnvísi er að vekja athygli á framúrskarandi starfi stjórnenda, örva umræðu um faglega stjórnun og hvetja félagsmenn til að auka þekkingu sína, hæfni og færni sem stjórnendur. Þannig vill Stjórnvísi stuðla að aukinni fagmennsku á sviði stjórnunar á Íslandi.