Fjármálatímaritið The Banker hefur valið Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra, seðlabankamann ársins 2023. Á vef The Banker segir að verðlaunin séu viðurkenning til embættismanns sem að mati blaðsins hafi tekist best að örva hagvöxt og stuðla að jafnvægi í hagkerfi sínu.

Í grein The Banker, þar sem valið er rökstutt, er bent á að Ásgeir, sem formaður peningastefnunefndar, hafi haft forystu um að Seðlabanki Íslands var fyrstur seðlabanka á Vesturlöndum til að hækka vexti í maí 2021 í kjölfar Covid farsóttarinnar til að stemma stigu við verðbólgunni.

„Á þeim tíma töldu aðrir seðlabankar ótímabært að hækka vexti og því var haldið fram að verðbólgan væri tímabundin,“ segir í greininni.

Þar er einnig greint frá því í greininni hvernig bankinn hefur beitt þjóðhagsvarúðartækjum til að auka viðnámsþrótt í litlu opnu hagkerfi eins og Íslandi.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur hækkað vexti hratt á undanförnum misserum. Nú standa stýrivextir í 6% og segir í greininni að Ásgeir vonist til þess að vextirnir þurfi ekki að hækka meira. Hann sé þó tilbúinn að gera það sem þarf til að koma verðbólgunni niður.