Árleg öryggisþjálfun hugbúnaðarsérfræðinga hjá Origo var haldin í vikunni. Viðburðurinn kallast Hakkaþon Origo og tóku 100 starfsmenn þátt. Starfsmenn unnu saman í litlum teymum að því að leysa verkefni og keppast að því að vera best í öryggi hjá fyrirtækinu. The Hackstreet Boys stóðu uppi sem sigurvegarar.

„Öryggi er okkur ofarlega í huga í hugbúnaðarþróun hjá Origo. Við erum með skýr markmið um reglulega þekkingaröflun til að bæta stafrænt öryggi. Allir hugbúnaðarsérfræðingar fara á árlegt öryggisnámskeið og ákváðum við að gera hlutina aðeins öðruvísi í ár," segir María Karlsdóttir, leiðtogi í gæðamálum í hugbúnaðargerð hjá Origo.

Í ár er fræðslan verkleg en Syndis, sérfræðingar í stafrænu öryggi, halda hakkaþon með áherslur á OWASP top 10 veikleika. OWASP eru alþjóðleg samtök um netöryggi sem halda úti lista yfir alvarlegustu veikleikana í hugbúnaðarþróun.

„Sama lögmál gildir um hugbúnaðarþróun og íþróttir hvað varðar sókn og vörn. Ekkert lið getur spilað góða vörn nema að vita hvernig á að spila góða sókn," segir Hjalti Magnússon, öryggissérfræðingur hjá Syndis sem stýrir þjálfuninni.

„Þess vegna býður Syndis upp á þjálfun þar sem við setjum forritara í spor hakkarans og kennum þær aðferðir sem beitt er til að ráðast á hugbúnaðarkerfi um allan heim. Slík þjálfun hefur fyrirbyggjandi áhrif, þar sem hún dýpkar skilning forritara á þeim árásum sem kerfi geta orðið fyrir og gerir þeim kleift að hanna öruggari hugbúnað frá grunni.”

Sigurvegarar hakkaþonsins voru The Hackstreet Boys. Liðið skipuðu þeir Friðrik Anton Haldórsson, Guðmundur Daníel Jakobsson, Skúli Freyr Hinriksson og Örn Óli Strange. Þeir hlutu í verðlaun gull öryggisnáms-skeiðar og 10.000 kr YAY gjafabréf.