Fimm þúsund manns í fæðingarorlofi voru ranglega taldir starfsmenn ríkisstofnana í opinberum gögnum Hagstofunnar, samkvæmt Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra Íslands.
Þetta kemur fram í sérvinnslu sem Bjarni óskaði eftir í framhaldi af opinberum tölum stofnunarinnar um umsvif á vinnumarkaði í júlí.
„Af þessu leiðir að fjölgun starfsmanna ríkisstofnana hefur verið ofmetin samhliða lengingu fæðingarorlofs,“ skrifar Bjarni á Facebook.
Í ViðskiptaMogganum í morgun var greint frá því að samkvæmt sérvinnslu Hagstofunnar hafði opinberum starfsmönnum fjölgað um 3-9% milli ára í júlí, eftir því hvaða rekstrarform er skoðað, á meðan almenni markaðurinn hefur dregið saman seglin og fjölgun verið lítil sem engin, eða 0,2%.
Bjarni segir að undanfarið ár hafi tæplega 90% fjölgunar á vinnumarkaði verið í einkageiranum, þvert á það sem reglulega er haldið fram í opinberri umræðu.
„Hlutfallsleg fjölgun í einkageiranum og hjá hinu opinbera er nokkurn veginn sú sama - um 1%. Villur í opinberum gögnum eru hið versta mál, ekki síst þegar þær verða grundvöllur umræðu um útþenslu hins opinbera sem enginn fótur reynist fyrir. Eða þegar hagvöxtur er vanmetinn um það sem nemur hagvexti í eðlilegu árferði,“ skrifar Bjarni.
Bjarni segir mikilvægt að fjölmiðlar og almenningur sýni stjórnvöldum aðhald þegar kemur að útþenslu hins opinbera.
„Aðhald í ríkisrekstrinum er enda yfirlýst forgangsmál okkar, til að styðja við áframhaldandi lækkun verðbólgu og vaxta. En þegar gögnin standast ekki skoðun, þá gerir umræðan það ekki heldur.
Á þeim grundvelli hef ég komið af stað vinnu til að bæta opinbera hagskýrslugerð. Röng gögn geta nefnilega verið verri en engin og þangað viljum við ekki fara,“ skrifar Bjarni.