Hildur Sverrisdóttir þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir mikilvægt að svara spurningum um mögulegt trúnaðarbrot í forsætisráðuneytinu í tengslum við afsögn Ásthildar Lóu Þórsdóttur fyrrum mennta- og barnamálaráðherra.

Ásthildur sagði af sér í gærkvöldi eftir að greint var frá því að hún hefði átt í sambandi við 15 ára dreng þegar hún var 22 ára en hún gekk með barn hans ári síðar.

Ásthildur Lóa sagði bæði í viðtali við RÚV í gærkvöldi og í yfirlýsingu sinni í morgun að aðstoðarmaður forsætisráðherra hafi látið hana hafa upplýsingar um konuna sem sendi bréf á forsætisráðuneytið vegna sambands hennar við drenginn fyrir rúmum þrjátíu árum.

„Miðað við það sem við höfum séð um málavöxtu vakna upp spurningar varðandi meðhöndlun upplýsinga úr forsætisráðuneytinu sem við munum krefjast svara við.

Þagnarskylda opinberra starfsmanna felur í sér að lagt er bann við því að miðla eða notfæra sér upplýsingar um málsatvik sem leynt eiga að fara og starfsmaður hefur orðið áskynja um í starfi sínu hvort sem það er fyrir tilviljun eða ekki. Markmið reglnanna er meðal annars að vernda mikilvæga einkahagsmuni, svo sem friðhelgi einkalífs,” segir Hildur í samtali við Viðskiptablaðið.

„Í fréttaflutningi hefur komið fram að viðkomandi hafi óskað eftir trúnaði þegar haft er samband við forsætisráðuneytið. Hins vegar hefur komið fram af hálfu ráðherranna að barnamálaráðherra hafi mátt sitja fund þann sem óskað var eftir í forsætisráðuneytinu, sem gæti breytt eðli trúnaðarins ef rétt er. Af svörum ráðherranna eru þau svo þegar orðin tvísaga um aðkomu aðstoðarmanns forsætisráðherra varðandi hverjum var veittar þessar upplýsingar. Í öllu falli þarf að fá úr því skorið hvernig þarna var í pottinn búið,“ segir Hildur.

Hún segir málið vekja upp ekki síður alvarlegar spurningar að forsætisráðherra hafi vitað um málavöxtu án þess að viðhafast nokkuð í heila viku þar til fjölmiðill fór að spyrjast fyrir um það.

„Þrátt fyrir útskýringar forsætisráðherra nú um að beðið hafi verið einhvers konar staðfestingar er það heldur ótrúverðugt og því miður lítur út fyrir að forsætisráðherra hafi ætlað að þagga niður málið og sópa því undir teppi. Það er alvarlegt.“

Hildur segir að lokum að stjórnarandstaðan muni sinna eftirlitsskyldu sinni í málinu og krefjast svara og réttra upplýsinga um öll þessi atriði málsins.