Ari og Davíð Helgasynir stofnuðu nýverið vísissjóðinn Transition sem mun fjárfesta í fyrirtækjum sem nota tækni til að leysa umhverfis- og loftlagsmál.
Samkvæmt skráningu hjá bandaríska verðbréfaeftirlitinu SEC safnaði sjóðurinn yfir 200 milljónum Bandaríkjadala í fyrra, sem samsvarar rúmlega 26 milljörðum íslenskra króna.
Sjóðurinn er með höfuðstöðvar í Lundúnum en samkvæmt gögnum bresku fyrirtækjaskrárinnar eru um 27 fjárfestar í sjóðnum.
Meðal þeirra eru J.Paul Getty Trust, Izhar Armony, meðeigandi hjá vísisjóðnum CRV, Security Trading, fjárfestingafélag Antti Herlin og fjölskyldu, samkvæmtInnherja.
Herlin er meðal annars ríkasti maður Finnlands en fleiri efnaðir Finnar hafa fjárfest í þeim bræðrum eins Illusian Ventures I Ky, fjárfestingafélag Ilkka Paananen.
Sjóðurinn David A M Wallerstein & Jan Yu Living Trust er einnig á lista sem og SC US/E ecosystem sem er á vegum Sequoia Capital, svo dæmi séu tekin. Þá eru sex sem fjárfesta í gegnum félög skráð í Danmörku en Davíð vann þar lengi.
Fjárfesta í níu vistkerfum
Í samtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku vildi Ari ekki gefa upp stærð sjóðsins en fjárfestingastefnan er að vinna með fyrirtækjum sem starfa innan svokallaðs „planetary boundaries“ en um er að ræða hugtak frá Stockholm Resilience Centre sem einblínir á níu vistkerfi sem eru undir þrýstingi af mannavöldum eins og súrnun sjávar, loftslagsbreytingar, eyðslu á drykkjarvatni og líffræðilegan fjölbreytileika.
„Strategían er að fjárfesta í tæknifyrirtækjum sem geta hjálpað með að leysa um-hverfisvanda innan þessara níu kerfa. Þetta eru níu umhverfiskerfin sem þurfa að vera í jafnvægi svo það sé hægt að lifa vel á plánetunni,“ sagði Ari en hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér.