Ari og Davíð Helga­synir stofnuðu ný­verið vísis­sjóðinn Transition sem mun fjár­festa í fyrir­tækjum sem nota tækni til að leysa um­hverfis- og loft­lags­mál.

Sam­kvæmt skráningu hjá banda­ríska verð­bréfa­eftir­litinu SEC safnaði sjóðurinn yfir 200 milljónum Banda­ríkja­dala í fyrra, sem sam­svarar rúm­lega 26 milljörðum ís­lenskra króna.

Sjóðurinn er með höfuð­stöðvar í Lundúnum en sam­kvæmt gögnum bresku fyrir­tækja­skrárinnar eru um 27 fjár­festar í sjóðnum.

Meðal þeirra eru J.Paul Getty Trust, Izhar Armony, með­eig­andi hjá vísi­sjóðnum CRV, Secu­rity Tra­ding, fjár­festinga­fé­lag Antti Her­lin og fjöl­skyldu, sam­kvæmtInn­herja.

Her­lin er meðal annars ríkasti maður Finn­lands en fleiri efnaðir Finnar hafa fjár­fest í þeim bræðrum eins Illu­sian Ventures I Ky, fjár­festinga­fé­lag Ilkka Paananen.

Sjóðurinn David A M Waller­stein & Jan Yu Living Trust er einnig á lista sem og SC US/E ecosystem sem er á vegum Sequoia Capital, svo dæmi séu tekin. Þá eru sex sem fjár­festa í gegnum fé­lög skráð í Dan­mörku en Davíð vann þar lengi.

Fjárfesta í níu vistkerfum

Í sam­tali við Við­skipta­blaðið í síðustu viku vildi Ari ekki gefa upp stærð sjóðsins en fjár­festinga­stefnan er að vinna með fyrir­tækjum sem starfa innan svo­kallaðs „planetary boundaries“ en um er að ræða hug­tak frá Stock­holm Resilien­ce Centre sem ein­blínir á níu vist­kerfi sem eru undir þrýstingi af manna­völdum eins og súrnun sjávar, lofts­lags­breytingar, eyðslu á drykkjar­vatni og líf­fræði­legan fjöl­breyti­leika.

„Strategían er að fjár­festa í tækni­fyrir­tækjum sem geta hjálpað með að leysa um-hverfis­vanda innan þessara níu kerfa. Þetta eru níu um­hverfis­kerfin sem þurfa að vera í jafn­vægi svo það sé hægt að lifa vel á plánetunni,“ sagði Ari en hægt er að lesa viðtalið í heild sinni hér.