Zhu Hengpeng, varaforstöðumaður hagfræðideildar hjá kínverska félagsvísindaháskólanum og einn af þekktustu hagfræðingum Kína, hefur verið handtekinn eftir að hafa gagnrýnt stefnu Xi Jinping í gegnum einkaskilaboð.
Kínversk stjórnvöld hafa átt í erfiðleikum með að endurreisa hagkerfi sitt í ljósi langvarandi fasteignakreppu og rýrnandi neyslumarkaðar.
Sumir hagfræðingar vilja meina að þjóðernis- og hagfræðistefna Xi, að berjast gegn því sem hann kallar óhóf kapítalismans og erlendum ógnum, sé að gera illt verra. Undir stjórn Xi hefur kommúnistaflokkurinn einnig handsamað frægt fólk innan viðskiptalífsins eins og Jack Ma og Bao Fan.
Hinn 54 ára gamli Zhu Hengpeng var handtekinn í apríl á þessu ári en hann mun hafa látið ópólitísk ummæli falla í einkahópspjalli í gegnum kínverska smáforritið WeChat.
Honum hefur síðan þá verið vikið úr stöðum sínum hjá CASS Institute of Economics, þar sem hann var meðal annars varaflokksritari. Þá hefur nafn hans verið fjarlægt af lista starfsfólks hjá hagfræðihugveitu Tsinghua-háskólans í höfuðborginni Peking.
Zhu starfaði hjá hugveitunni í meira en tvo áratugi. Þar sérhæfði hann sig í heilsuhagfræði og veitti stjórnvöldum ráðgjöf þegar kom að endurbótum á sjúkrahúsum. Hann var einnig reglulegur gestur í kínverskum fréttum þegar verið var að ræða slík málefni.
Samkvæmt WSJ hefur hann ekki svarað tölvupóstum né mætt til dyra þegar bankað var upp á hjá honum á heimili sínu í Peking. Upplýsingaskrifstofa ríkisráðsins, sem sér um fjölmiðlafyrirspurnir fyrir kínversk stjórnvöld, hefur heldur ekki svarað beiðnum fjölmiðla.