Fjárfestingafyrirtækið Hindenburg Research, sem sérhæfir sig í skortsölu hlutabréfa, birti í gær greiningu sína á tölvuleikjafyrirtækinu Roblox.
Samkvæmt skortsalanum hefur Roblox verið ýkja notendafjölda í samskiptum við fjárfesta alveg frá því að félagið fór á markað 2021.
Í skýrslunni er Roblox sakað um að leggja áherslu á vöxt á kostnað öryggis en að þeirra mati hefur tölvuleiknum ekki tekist að verja börn frá barnaníðingum og öðru óbarnvænu efni.
Hindenburg Research segir í skýrslunni að greiningin sé m.a. byggð á viðtölum við fyrrum starfsmenn Roblox og notendur tölvuleiksins.
Talsmaður Roblox segir skýrsluna villandi og að það sé augljóst að skortsalinn hafi fjárhagslegan hvata til að tala félagið niður.
Markaðsvirði Roblox er um 27 milljarðar bandaríkjadala og námu tekjur þess í fyrra 2,8 milljörðum dala.
Gengið féll um 10% í utanþingsviðskiptum eftir að skýrslan birtist og um 2% til viðbóta fyrir opnum markaði í gær.
Hindenburg Research er einn þekktasti skortsali Bandaríkjanna en skýrsla félagsins um rafbílaframleiðandann Nikola torveldaði samning fyrirtækisins við General Motors og leiddi til þess að Trevor Milton forstjóri fyrirtækisins var sakfelldur fyrir fjársvik.
Í fyrra beindi fyrirtækið spjótum sínum að Adani Group á Indlandi og féll markaðsvirði félagsins um 100 milljarða Bandaríkjadala.
Hindenburg Research hefur þó ekki alltaf haft árangur sem erfiði en félagið beindi spjótum sínum að Axos Financial í júní en hlutabréf fjármálafyrirtækisins hafa hækkað um 16% síðan þá.