Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri Arctic Portal, gefur lítið fyrir yfirlýsingar Karls Steinars Valssonar, yfirmanns öryggis- og greiningarsviðs ríkislögreglustjóra, um njósnir Kínverja á Íslandi.
Karl Steinar sagði fyrir helgi að tímabært væri að ræða njósnir Kínverja á Íslandi en í nýju stöðumati, sem Karl Steinar kynnti á ráðstefnu síðastliðinn fimmtudag, vísaði hann sérstaklega í óvissu um starfsemi norðurljósarannsóknarstöðvar í Þingeyjarsýslu.
Hin umrædda rannsóknarstöð, CIAO Arctic Observatory, er staðsett við Kárhól í Þingeyjarsýslu á Norðurlandi en rannsóknarstöðin hefur verið mikið í brennidepli undanfarin ár, ekki síst vegna aukinnar pólitískrar spennu milli Kína og Vesturlandanna.
Fulltrúar Atlantshafsbandalagsins hafa meðal annars lýst yfir áhyggjum af starfseminni og sögðu að stöðin gæti mögulega verið notuð í fjarskiptanjósnir. Aðrir halda því fram að mælingar á segulsviði, sólvindum, rafeindabylgjum og öðrum geimgeislum gætu mögulega verið notaðar í hernaðarlegum tilgangi.
Halldór segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann skilji hreinlega ekki um hvað yfirmaður öryggis- og greiningarsviðs ríkislögreglustjóra sé að tala. Hann telur það jafnframt vera mjög alvarlegt mál að einstaklingur í slíkri stöðu gefi frá sér svona órökstuddar yfirlýsingar.
„Ég get sagt þér alla söguna um þetta verkefni og þessar sögusagnir sem eru að koma frá lögreglunni eru ekkert annað en algjört kjaftæði. Það er bara enginn grundvöllur fyrir þessu. Ég þekki þetta verkefni frá A til Ö, er sjálfur með lykla að húsinu, veit hverjir hafa verið þar og það hefur enginn einstaklingur né búnaður verið þarna sem gæti komið nálægt njósnum.“
„Ef við, sem þjóð, vildum ná fram einhverri sérstöðu sem þjónustumiðstöð í þeim málefnum þá þyrftum við að vinna með öllum, þar á meðal með Kínverjum.“
Hann segir að lögreglan hafi þegar mætt tvisvar á Kárhól til að rannsaka stöðina, fyrst í fylgd Gunnlaugs Björnssonar, vísindamanns við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. „Ég fór síðan með þeim í seinna skiptið og þeir fundu ekki nokkurn skapaðan hlut, samt er verið að henda svona fram.“
Uppruni rannsóknarstöðvarinnar
Halldór Jóhannsson hefur átt beinan þátt í rannsóknarverkefninu við Kárhól frá upphafi en hann segir að áformin hafi byrjað árið 2012 þegar ríkisstjórnir Íslands og Kína skrifuðu undir rammasamning um samstarf á sviði norðurslóðamála.
„Þetta byrjaði þegar ég og Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, ræddum saman á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins, sem þá var haldinn á Grænlandi. Við töldum þá að ef við, sem þjóð, vildum ná fram einhverri sérstöðu sem þjónustumiðstöð í þeim málefnum þá þyrftum við að vinna með öllum, þar á meðal með Kínverjum.“
Hann segir að í framhaldi af því hafi verið sent inn minnisblað til kínverska sendiráðsins um mögulegt samstarf á sviði norðurslóðamála sem tengdist meðal annars gagnamiðlun. „Við erum náttúrulega bara peð í stóra samhenginu en við getum samt verið mikilvægur þátttakandi og eigum að markaðssetja okkur á þeim forsendum.“
Eftir heimsókn Snædrekans, eins frægasta ísbrjóts Kínverja, til Íslands árið 2013 var síðan skrifað undir samkomulag milli Rannís og SOA (e. State Oceanic Administration).
Á þeim tíma hafði Halldór unnið náið með Þorsteini Gunnarssyni hjá Rannís við að undirbúa mögulega staðsetningu fyrir samstarfið og var þá sérstaklega horft til Kárhóls. Landið hafði þá verið til sölu og hófst samstarfið formlega við undirritun kaupsamnings í október 2013.
Draugagangur og dónaskapur
Halldór segir að það sé margt í ferlinu sem hefði geta gengið betur og að pólitíkin undanfarin ár hafi vissulega ekki hjálpað. Það sé hins vegar enginn grundvöllur fyrir þessum ásökunum og telur að það sé verið að nota Kárhól sem blóraböggul í alþjóðlegu samhengi.
Hann segir að það hafi ekkert komið upp á borð í gegnum ferlið sem ætti að ýta undir þessa umræðu og ef eitthvað hefði komið upp þá hefði verið sjálfsagt að ræða það.
„Það eru margir stóraðilar sem eru að græða mikið á þessu hernaðarbrölti í heiminum í dag og þetta er bara orðin ákveðin pólitík. Mér finnst þetta tal hans Karls Steinars anga af draugagangi sem hann vilji búa til í von um að styrkja sitt embætti og fá enn meiri pening.“
Halldór bendir á að öryggisráðgjafar annarra ríkja hafi einnig heimsótt Kárhól og hafi þeir heldur ekki fundið neitt grunsamlegt. Hann segist hafa jafnvel enn meiri áhyggjur af öryggisfulltrúum annarra ríkja þegar kemur að hlerun við Kárhól frekar en Kínverjum.
„Við erum að reyna að byggja alþjóðasamstarf og svo koma svona karlar og reyna vísvitandi að skemma fyrir samstarfsverkefni. Þetta er líka bara rosalega dónalegt að halda þessu fram, vitandi að það sé búið að gera úttekt á þessu og að það sé búið að leita að einhverjum tækjum sem fundust ekki.“