Donald Trump, for­seti Bandaríkjanna, hefur vakið óróa á gjald­eyris­mörkuðum með yfir­lýsingum um mögu­lega tolla á helstu við­skipta­félaga Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada.

Hann hét 25% tollum gegn báðum löndum á fyrsta degi sínum í em­bætti og sagði að að­gerðirnar gætu tekið gildi strax 1. febrúar.

Þetta kom fram í ræðu Trumps í Hvíta húsinu síðastliðið mánu­dagskvöld en Financial Timesgreinir frá.

Trump rökstuddi til­lögurnar með vísan til veikrar landa­mæragæslu og ólög­legs inn­flutnings á fentanýli.

Gengi mexíkóska pesósins féll um 1,3% og kana­díska dollarans um 1% gagn­vart Bandaríkja­dal í við­skiptum á Evrópumörkuðum í morgun.

Á sama tíma hafði dollarinn styrkst eftir að hafa áður veikst um allt að 1,3% gagn­vart helstu gjald­miðlum.

Hluta­bréfa­vísitölur á Wall Street, Nas­daq 100 og S&P 500 munu báðar opna ör­lítið hærra ef marka má utan­þings­við­skipti en markaðir voru lokaðir í Bandaríkjunum í gær vegna minningar­dags Martins Lut­her King.

Sér­fræðingar telja að stefna Trumps verði ófyrir­sjáan­legri og óstöðugri en sú sem ein­kenndi stjórn Joe Bidens.

„Þessi tegund óstöðug­leika er nýi veru­leikinn,“ segir Eric Winograd, hag­fræðingur hjá Alli­ance Bern­stein.

Trump hefur einnig beint sjónum sínum að Evrópu­sam­bandinu og hótað tollum ef sam­bandið eykur ekki kaup á bandarískri hráolíu.

Evran lækkaði um 0,6% gagn­vart dollar, og breska pundið fylgdi sömu leið með 0,6% lækkun.

Í Evrópu dró úr spennu á hluta­bréfa­mörkuðum, en á móti urðu vindorku­fyrir­tæki fyrir áfalli þegar Trump til­kynnti að engin ný leyfi yrðu gefin út fyrir vindorku­verk­efni í Bandaríkjunum.

Danska fyrir­tækið Vestas lækkaði um 2% og þýska Nor­dex um 3%.

Þá tók gengi Ørsted, stærsta orku­fyrir­tæki Dan­merkur, dýfu en félagið greindi frá 12,1 milljarða danskra króna af­skriftum í gær.

Gengi raf­myntarinnar Bitcoin fór yfir 109 þúsund Bandaríkja­dali á inn­setningar­degi Trumps en dalaði síðan niður í 104 þúsund dali dölum eftir að Trump nefndi ekki stafræna gjald­miðla í ræðu sinni.

Á mörkuðum í Asíu voru viðbrögð hóf­stillt eftir að Trump sleppti því að setja inn­flutnings­tolla á Kína strax á fyrsta degi.

Kín­verska CSI 300 hluta­bréfa­vísi­talan stóð í stað, en Hang Seng-vísi­talan í Hong Kong hækkaði um 0,9%.

Kín­verska ren­min­bí styrktist einnig í 7,25 gegn bandaríkja­dal en veiktist aftur í 7,28.

„Við höfum lík­lega komist hjá verstu mögu­legu sviðs­mynd í bili,“ sagði Jason Lui, sér­fræðingur hjá BNP Pari­bas.