Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur vakið óróa á gjaldeyrismörkuðum með yfirlýsingum um mögulega tolla á helstu viðskiptafélaga Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada.
Hann hét 25% tollum gegn báðum löndum á fyrsta degi sínum í embætti og sagði að aðgerðirnar gætu tekið gildi strax 1. febrúar.
Þetta kom fram í ræðu Trumps í Hvíta húsinu síðastliðið mánudagskvöld en Financial Timesgreinir frá.
Trump rökstuddi tillögurnar með vísan til veikrar landamæragæslu og ólöglegs innflutnings á fentanýli.
Gengi mexíkóska pesósins féll um 1,3% og kanadíska dollarans um 1% gagnvart Bandaríkjadal í viðskiptum á Evrópumörkuðum í morgun.
Á sama tíma hafði dollarinn styrkst eftir að hafa áður veikst um allt að 1,3% gagnvart helstu gjaldmiðlum.
Hlutabréfavísitölur á Wall Street, Nasdaq 100 og S&P 500 munu báðar opna örlítið hærra ef marka má utanþingsviðskipti en markaðir voru lokaðir í Bandaríkjunum í gær vegna minningardags Martins Luther King.
Sérfræðingar telja að stefna Trumps verði ófyrirsjáanlegri og óstöðugri en sú sem einkenndi stjórn Joe Bidens.
„Þessi tegund óstöðugleika er nýi veruleikinn,“ segir Eric Winograd, hagfræðingur hjá Alliance Bernstein.
Trump hefur einnig beint sjónum sínum að Evrópusambandinu og hótað tollum ef sambandið eykur ekki kaup á bandarískri hráolíu.
Evran lækkaði um 0,6% gagnvart dollar, og breska pundið fylgdi sömu leið með 0,6% lækkun.
Í Evrópu dró úr spennu á hlutabréfamörkuðum, en á móti urðu vindorkufyrirtæki fyrir áfalli þegar Trump tilkynnti að engin ný leyfi yrðu gefin út fyrir vindorkuverkefni í Bandaríkjunum.
Danska fyrirtækið Vestas lækkaði um 2% og þýska Nordex um 3%.
Þá tók gengi Ørsted, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur, dýfu en félagið greindi frá 12,1 milljarða danskra króna afskriftum í gær.
Gengi rafmyntarinnar Bitcoin fór yfir 109 þúsund Bandaríkjadali á innsetningardegi Trumps en dalaði síðan niður í 104 þúsund dali dölum eftir að Trump nefndi ekki stafræna gjaldmiðla í ræðu sinni.
Á mörkuðum í Asíu voru viðbrögð hófstillt eftir að Trump sleppti því að setja innflutningstolla á Kína strax á fyrsta degi.
Kínverska CSI 300 hlutabréfavísitalan stóð í stað, en Hang Seng-vísitalan í Hong Kong hækkaði um 0,9%.
Kínverska renminbí styrktist einnig í 7,25 gegn bandaríkjadal en veiktist aftur í 7,28.
„Við höfum líklega komist hjá verstu mögulegu sviðsmynd í bili,“ sagði Jason Lui, sérfræðingur hjá BNP Paribas.