Birgir Jónsson, fyrrverandi forstjóri Póstsins, segist ekki sjá fyrir sér að verða forstjóri hjá ríkisfyrirtæki á ný. Þetta kemur fram í viðtali við Birgi í hlaðvarpinu Snæbjörn talar við fólk sem Snæbjörn Ragnarsson stýrir.
„Ég áttaði mig á því að þetta flokkspólitíska kerfi á Íslandi hefur aðra hagsmuni að leiðarljósi en til dæmis í þessu tilfelli rekstrarhagsmuni. Ég vil að fyrirtæki sem eru í ríkiseigu, sem eru í almannaeigu, sem ég og þú eigum séu rekin á sem hagkvæmastan máta. Veiti sem besta þjónustu og að við sem skattgreiðendur þurfum ekki að setja pening í þau að óþörfu. Það fer ekkert rosalega vel saman við áherslur hjá einhverjum stjórnmálaflokkum sem hafa annað „agenda“,“ segir Birgir.
Í viðtalinu fer hann einnig í gegnum endurskipulagningu Póstsins í sinni 17 mánaða forstjóratíð en hann lét af störfum í nóvember. Birgir tók við af Ingimundi Sigurpálssyni sem hafði verið forstjóri í ríflega 14 ár. Starfsmönnum fyrirtækisins var til að mynda fækkað um 300 í forstjóratíð Birgis. Fjölmargir starfsmenn Póstsins hafi áttað sig á að of margir væru að vinna hjá fyrirtækinu. „Svo ótrúlega margir innanbúðar áttuðu sig á að þetta var ekki eðlilegt – að þetta myndi ekki ganga, það væru of margir,“ segir Birgir. „Það voru allir búnir að sjá það.“
„Stundum ert þú bara kominn of nálægt hlutunum til að sjá þá í stóru myndinni og þú ert bara búinn að ákveða að vandamálið sé annars staðar. Þetta snýst um að hafa þessa fjarlægð," segir Birgir.
Sjá einnig: „Svakaleg sóun í opinberum rekstri“
Hann segist hafa hafnað fjölda starfstilboða frá því hann lét af störfum sem forstjóri Póstsins í nóvember. Hann þurfi að hafa fulla trú á þeim verkefnum sem hann fari út í og þá fari hann alla leið. Birgir var áður yfirmaður hjá Össuri í Asíu, forstjóri Iceland Express, aðstoðarforstjóri Wow air og forstjóri InfoPress Group í Austur-Evrópu sem og trommuleikari Dimmu.
Ríkisforstjórar segi nær aldrei upp
Birgir segir marga vera hissa á því að hann hafi sagt upp án þess að vera búinn að ákveða hvað tæki við. Nær óheyrt væri að ríkisforstjóri segði upp störfum af sjálfsstáðum. „Það er vandamálið við þetta kerfi. Það er svo mikil sóun,“ segir Birgir. „Það er hægt að gera þetta svo miklu betur.“
Aðhaldið sem sé til staðar fyrir stjórnendur einkarekinna fyrirtækja vanti oftar en ekki hjá ríkinu. „Það vill gerast hjá ríkinu. Það er enginn hvati,“ segir Birgir. Hann nefnir endurskipulagningu Póstsins sem dæmi. „Ég fékk ekkert meira fyrir það. Það var enginn bónus“ segir Birgir.
Eftir á skýringar stjórnarinnar
Líkt og Viðskiptablaðið fjallað um í desember þá segja fundargerðir stjórnar póstsins að lækkun gjaldskrár fyrirtækisins hafi ekki verið unnin í samráði við stjórninan . Birgir segir málið tilbúning. „Þetta er pólitískt mál. Ég hef engar áhyggjur af því. Ég veit sannleikann í þessu máli,“ segir Birgir.
„Í þessu tiltekna máli er verið að fara í eftir á skýringar sem öll gögn sýna að er rangt,“ segir hann.
„Mér finnst þetta leiðinlegt, en mér myndi finnast þetta ennþá leiðinlegra ef ég væri ekki með hreina samvisku þar sem það er verið að væna mig um eitthvað sem ég gerði ekki,“ bætir Birgir við.
„Þetta hentar ekki pólitískum áherslum núna. Það gerði enginn athugasemdir fyrir ári síðan þegar einhver tiltekin ákvörðun var tekin. Núna er allir að segjast ekki hafa vitað af hlutunum. Þetta er bara algjör sandkassi.“