Kaffihúsið Elliði í Elliðaárdalnum opnaði skömmu fyrir síðustu helgi eftir nokkurra mánaða bið en veitingastaðurinn er staðsettur í húsi við Elliðaárstöð þar sem Á Bistro hafði áður verið með starfsemi.
Stefán Melsted, eigandi Elliða, segir í samtali við Viðskiptablaðið að fyrstu dagarnir hafi gengið ótrúlega vel og að viðtökurnar frá viðskiptavinum hafi farið fram úr björtustu vonum.
„Nú erum við komnir þokkalega vel af stað. Við tókum úr lás í síðustu viku og það er búið að vera mjög mikið að gera, enda hefur veðrið verið æðislegt. Það var til dæmis brjálað að gera um helgina.“
Hann segir kaffihúsið vera opið frá 11-17 og býður Elliði upp á létta hádegisverði, kaffi, kökur og fleira. „Við erum líka með avókadó-ristabrauð sem margir eru að sækjast í.“

Stefán bætir við að aðstaðan sé tilvalin þar sem fólk geti komið keyrandi, fótgangandi eða með strætó. „Við erum líka með kaldan á dælu þannig fólk getur komið hingað, fengið sér bjór, notið veðursins og tekið svo strætó beint niður á Lækjartorg.“
Að sögn Stefáns hafa Árbæingar, Breiðhyltingar og íbúar úr Fossvoginum heimsótt Elliða undanfarna daga og er kaffihúsið sérstaklega vinsælt meðal foreldra.
„Þetta er bara flottasta útivistarsvæði í Reykjavík og ég tala nú ekki um að vera með besta leikvöll borgarinnar hérna fyrir utan líka. Fólk getur bara komið með krakkana sína og horft á þá hérna beint fyrir utan.“