Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að miðað við núverandi umræðu og lagalegt umhverfi, þá sé ekki tímabært að hefja áfengissölu í vefverslun.

Hún segir að það hafi lengi verið kallað eftir því að löggjafinn setji skýrari ramma um fyrirkomulag áfengissölu á netinu, sem hver túlki í dag eftir sínu höfði.

Guðrún Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að miðað við núverandi umræðu og lagalegt umhverfi, þá sé ekki tímabært að hefja áfengissölu í vefverslun.

Hún segir að það hafi lengi verið kallað eftir því að löggjafinn setji skýrari ramma um fyrirkomulag áfengissölu á netinu, sem hver túlki í dag eftir sínu höfði.

„Við gerum ráð fyrir því að fyrst Hagkaup sé nú farið af stað með vefsölu á áfengi að þau telji sig hafa sterk lagaleg rök á bak við sig. Það er búið að setja frumvarp um áfengissölu aftur á dagskrá í október og verður áhugavert að sjá hvort þingið muni loksins taka málið föstum tökum.“

Guðrún telur að það verði að tryggja að fyrirtæki hafi skýran ramma um sína starfsemi þegar kemur að verslun með áfengi. Það sé ekki hægt að una við að málið malli áfram í þeirri óvissu sem ríkt hefur.

„Þetta er eiginlega orðið að hálfgerðum farsa. Í dag er ekkert samræmt ferli til staðar eða eftirlit með framkvæmd. Það er einnig athyglisvert að hlusta á þá, sem segja netsölu á vegum einkaaðila ógna lýðheilsu þjóðarinnar, horfa fram hjá því að ríkisrekna Vínbúðin fjölgar útsölustöðum og framlengir opnunartíma,“ segir Guðrún.