Úrvalsvísitala íslenska hlutabréfamarkaðarins, OMXI Iceland 10, hefur ekki fylgt þróun markaða vestanhafs og í Evrópu það sem af er ári.
Það að íslenska úrvalsvísitalan hafi ekki fylgt erlendum vísitölum það sem af er ári má að einhverju leyti rekja til skells á markaðnum í byrjun maí. Lækkaði úrvalsvísitalan þá um 7,5% á einum degi, 4. maí, og hélt áfram að lækka vikurnar eftir. Um er að ræða þriðju mestu lækkun vísitölunnar frá fjármálahruninu. Einu tveir dagarnir þar sem vísitalan lækkaði meira á einum degi var 9. mars 2009 þegar hún lækkaði um 26,9% og 12. mars 2020 þegar hún lækkaði um 8,3%.
„Þetta kom til fyrst og fremst vegna Marel. Rekstur félagsins hefur verið að dala síðustu tvö ár og það voru ekki merki um viðsnúning í síðasta uppgjöri,“ segir Snorri Jakobsson, greinandi og eigandi Jakobsson Capital, þegar hann er spurður út í slæma frammistöðu úrvalsvístölunnar það sem af er ári, en Marel birtir uppgjör annars ársfjórðungs 26. júlí næstkomandi. Að mati þeirra sem Viðskiptablaðið hefur rætt við um stöðuna skiptir næsta uppgjör Marel sköpum fyrir þróunina á mörkuðum á næstu misserum.
Snorri bætir við að aukin áhersla lífeyrissjóða á að fjárfesta í erlendum hlutabréfum og á sama tíma minni áhersla á innlend hlutabréf vegi þungt.
„Lífeyrissjóðirnir eru langstærstir á íslenska hlutabréfamarkaðnum og hafa mikil áhrif á markaðinn. Þegar þeir ákveða að leggja aukna áherslu á fjárfestingar erlendis, eins og við sáum á síðasta ári, þá vigtar það mjög þungt.“
Spurður hvað þurfi til þess að markaðurinn taki við sér á ný segir Snorri að samfelld þjónusta og upplýsingagjöf skipti mestu máli fyrir erlenda fjárfesta.
„Það sem stjórnendur íslenskra fyrirtækja klikka á er að halda að þetta snúist allt um eina sölu. Þetta er ekki sala, þetta er þjónusta. Þetta snýst um samfellda þjónustu, eftirfylgni og upplýsingagjöf. Það er það sem skiptir öllu máli. Ég hef mikið verið í samskiptum við erlenda fjárfesta með hléum í yfir tvo áratugi. Ein glimmer skýrsla og fjárfestafundur með lúðrablæstri skilar takmörkuðum árangri ef honum er ekki fylgt eftir."