Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að hækka stýrivexti um 0,5 prósentustig og eru stýrivextir því nú 6,5%.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri kynntu yfirlýsingu peningastefnunefndar nú í morgun og hófst fundurinn klukkan 09:30.
Á fundinum var Ásgeir spurður út í hvað hefði breyst varðandi framsýnu leiðsögnina, en í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að nefndin telji líklegt að „auka þurfi aðhaldið enn frekar á næstunni til þess að verbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma.“
Ásgeir segir allt hafa lagst gegn bankanum frá síðasta fundi í nóvember.
„Krónan hefur lækkað, kjarasamningar dýrari en við gerðum ráð fyrir og sá hópur sem á eftir að semja heimtar enn frekari launahækkanir. Aðhald ríkisfjármálana hefur minnkað og við sjáum að verðbólga er nú 9,9% og hefur aukist á nýjan leik,“ segir Ásgeir.
Hann segir verðbólguna bitna mest á þeim sem lægstu tekjur hafa. Allir sem hafi hagsmuni launafólks í huga hljóti að leggjast á eitt við að berjast gegn verðbólgunni.
„Það er mjög mikilvægt að hafa í huga að það er ekki nóg að berjast fyrir krónutöluhækkunum. Ég veit að seðlarnir sem við prentum eru fallegir en það sem skiptir máli er kaupmátturinn sem felst í peningnum.“
„Þau eru greinilega í öðrum veruleika“
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri, segir ljóst að aðilar á vinnumarkaði og hið opinbera lifi í öðrum veruleika.
„Á síðasta fundi sagði ég að ef aðrir spiluðu ekki með þá myndi Seðlabankinn spila sóló. Þegar Ásgeir gaf boltann upp í október til aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera þá gerðum við ekki ráð fyrir því að þeir myndu spila sóló við allt önnur mörk. Í ljósi minna aðhalds hjá hinu opinbera og þessara dýru kjarasamninga þýðir einfaldlega ekki að biðla til þessara aðila að spila með. Þeir eru greinilega í öðrum veruleika.“
Ásgeir segir ákvörðun bankans um að hækka vexti fremur einfalda. Það þurfi að auka aðhaldið.
„Þetta er hagfræði 101. Það er 7% hagvöxtur, uppsafnaðar launahækkanir á síðustu 2 árum er 18% og viðskiptahallinn mikill því við erum að eyða svo miklu. Við þurfum að auka aðhaldið.“