Fjárfestingarkeppni háskólanna hófst í gær en hún er á vegum Arion banka og Dyngju. Hugmyndin að keppninni er að efla fræðslu um fjármál og fjárfestingar og gera nemendum kleift að kljást við raunveruleg verkefni úr atvinnulífinu.

Keppnin stendur yfir frá 14. október til 11. nóvember og eru heildarverðmæti vinninga 275 þúsund krónur. Sigurvegari keppninnar er sá sem hefur náð fram mestri ávöxtun á safninu sínu á þessu tímabili.

Fjárfestingarforritið Dyngja virkar sem vettvangur keppninnar og virkar ferlið þannig að keppendur skrá sig inn og í kjölfarið fá 10 milljón sýndarveruleikakrónur til þess að fjárfesta í. Hægt er að eiga viðskipti með sjóði Stefnis og öll hlutabréf á aðalmarkaði Nasdaq á Íslandi.

Forritið var stofnað af þeim Alexander Sigurðssyni, Fannari, Loga Hannessyni og Magnúsi Benediktssyni, en á þeim tíma voru þeir nemendur við Verzlunarskóla Íslands. Reynir Freyr Hauksson bættist síðan við teymið.

Félagarnir hönnuðu smáforritið sjálfir og fengu til liðs við sig fjögurra manna tölvunarfræðiteymi frá HR sem voru á höttunum eftir lokaverkefni í grunnnámi.

Magnús Benediktsson segir í samtali við Viðskiptablaðið að hugmyndin hafi byrjað í Verzlunarskóla Íslands um 2020 og hefur því forritið verið í rúm 4-5 ár í þróun.

Hann segir að keppnin sé opin öllum aldurshópum en sé fyrst og fremst hugsuð fyrir ungt fólk og þá sem eru að stíga sín fyrstu skref í fjármálum.

„Markmiðið er að taka út þennan ósýnilega múr sem er í kringum hlutabréfakaup. Þetta virkar oft yfirþyrmandi fyrst en með appinu getum við líka leyft fólki að venjast breytingum á hlutabréfamarkaði án þess að taka raunverulegar áhættur. Fólk getur þá líka vanist því að halda í verðbréfin frekar en að selja strax, því þetta er langhlaup, en ekki spretthlaup,“ segir Magnús.