Hækkun vísitölu neysluverðs á milli mars og apríl var meiri en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. „Þetta er töluvert meira en allir bjuggust við,“ segir Konráð Guðjónsson hagfræðingur hjá Arion banka í samtali við Viðskiptablaðið. Greiningardeild bankans hafi spáð 0,94% hækkun vísitölunnar á milli mánaða.
Hagfræðideild Landsbankans hafði spáð því að vísitala neysluverðs myndi hækka um 1% á milli mánaða og að verðbólgan færi því niður í 9,5%. Greining Íslandsbanka hafði spáð 0,6% hækkun vísitölunnar sem hefði haft í för með sér að verðbólga hefði hjaðnað í 9,1%.
Mjólkurvörur hækkað meira en reiknað var með
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 1,31% á milli mánaða og ársverðbólga mældist því 9,9% og hækkaði um 0,1 prósentustig frá fyrri mánuði. Konráð segir nokkra þætti skýra meiri hækkun en gert var ráð fyrir. Í fyrsta lagi hafi verð á matvörum hækkað um 1,5% á milli mánaða. „Rétt tæplega helmingurinn á því er vegna hækkunar á mjólkurvörum, sem má rekja til ákvörðunar verðlagsnefndar búvara,“ segir Konráð. „Það er aðeins meira en við bjuggumst við,“ bætir hann við.
Þá hafi reiknuð húsaleiga hækkað um 2,5%, verð á húsgögnum og heimilisbúnaði o.fl. hækkaði um 1,9% og flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 19,5%. Konráð segir svo mikla hækkun flugfargjalda hafa komið á óvart. „Við spáðum 10% hækkun á flugfargjöldum,“ bætir hann við.
„Það er mikilvægt að fyrirtækin gæti hófsemi í arðgreiðslum og álagningu.“ - Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra
Stjórnvöld kalla eftir ábyrgð atvinnulífsins
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur verið tíðrætt um það undanfarið að atvinnulífið gæti hófs og sýni ábyrgð í baráttunni gegn verðbólgu. Í samtali við Vísi þann 28. febrúar sl. sagði ráðherrann: „Það er mikilvægt að fyrirtækin gæti hófsemi í arðgreiðslum og álagningu. Það er auðvitað sérstakt umhugsunarefni núna þar sem við erum að sjá matarkörfuna hækka hjá fólkinu í landinu sem og aðrar nauðsynjavörur.“

Segjast vera á tánum gegn verðbólgu
Forsætisráðherra hefur tjáð sig opinberlega um áform stjórnvalda um að ná tökum á verðbólgu, en á ársfundi Seðlabanka Íslands, sem var haldinn þann 30. mars sl. sagði ráðherrann í ávarpi:
„En verðbólgan er hins vegar meiri og þrálátari en vonir stóðu til og er nú orðið meginviðfangsefni hagstjórnar hér á landi eins og reyndar víðast annarsstaðar. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að við náum tökum á verðbólgunni – það er forsenda þess að við getum haldið áfram því verkefni að efla lífsgæði og velsæld fyrir okkur öll.“
„Skilaboð okkar eru skýr, við munum grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja stöðugleika og sporna gegn verðbólgu og frekari vaxtahækkunum,“ sagði hún jafnframt.
„Skilaboð okkar eru skýr, við munum grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja stöðugleika og sporna gegn verðbólgu og frekari vaxtahækkunum."
Mjólkurverð hækkað umfram verðbólgu
Í þessu samhengi vekur athygli að verðlagsnefnd búvara hefur hækkað verð á mjólkurvörum um 13,90% frá 1. mars 2022. Aðspurður hvort Konráð telji áherslur stjórnvalda annars vegar og þessar hækkanir hins vegar vera samrýmanlegar segir hann að stjórnvöld gætu gert meira til að sporna gegn verðbólgu. „Það er engum blöðum um það að fletta,“ bætir hann við.
Verðlagsnefnd búvara er skipuð og starfar eftir ákvæðum búvörulaga. Nefndin er skipuð sex mönnum og ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu. Samtök launþega tilnefna tvo fulltrúa í nefndina. Skal annar þeirra tilnefndur af stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og hinn af stjórn Alþýðusambands Íslands.