Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að ákærur verða gefnar út á hendur forsvarsmanna þeirra fyrirtækja sem starfrækja netverslun með áfengi en um fimm ár eru síðan lögreglan hóf rannsókn á slíkri netverslun.
Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins lagði fram kæru þann 16. júní 2019 á hendur netverslunum sem þá voru starfræktar.
Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaups, segir í samtali við Viðskiptablaðið að lögreglan hafi ekki talað við Hagkaup enda sé rekstur netverslunarinnar með áfengi í erlendu félagi í Hollandi og færi erindið að öllum líkindum þangað. Hann furðar sig þó á þessum nýjustu aðgerðum í ljósi þróunar meðal yngri kynslóða.
„Staðreyndin er sú að þetta eru gömul lög sem byggja á gömlum grunni en heimurinn er búinn að breytast mjög mikið. Lögin voru líka öll samin áður en Internetið var til og við erum á mjög skrýtnum stað að ætla að stöðva þetta.“
Sigurður segir að yngri kynslóðir hugsi einfaldlega öðruvísi um áfengi en sú sem var alin upp við aðra siði.
Hann bendir á að á undanförnum 12 mánuðum hafi Hagkaup selt meira en 180 þúsund sölueiningar af óáfengum bjór eða í kringum 75.000 lítra. Léttvínssala hjá fyrirtækinu hafi sömuleiðis aukist en Hagkaup seldi á sama tímabili 23 þúsund flöskur af óáfengu léttvíni.
Sigurður furðar sig einnig á því að fyrirtæki eins og Heinemann fái að selja áfengi á Keflavíkurflugvelli en Sante ehf. kærði til að mynda einkahlutafélagið vegna ólögmætrar smásölu á áfengi í tollfrjálsri verslun.
Þrátt fyrir að einkaréttur á áfengi sé skýrlega staðfestur í áfengislögum og lögum um ÁTVR hafi Heinemann gert samning við Isavia um rekstur smásölu á áfengi án þess að slíka undanþágu sé að finna í lögum.
„Það eru allir sammála því að það megi skerpa á hlutunum til að allir séu á sömu blaðsíðu. Þegar þú ert á Alþingi, alveg eins og þegar þú ert stjórnandi í fyrirtæki, þá verður þú að þora að taka erfiðar ákvarðanir.“