Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins hvatti íslensk fyrirtæki til að láta meira í sér heyra þegar stjórnmálamenn taka ákvarðanir um hagi atvinnulífsins.
Í ræðu undir lok Viðskiptaþings í Borgarleikhúsinu í gær gagnrýndi hann það hvernig stjórnmálamenn og atvinnulíf hafa oft ekki skilið hvort annað, þar sem fyrirtæki hafi of oft treyst á að stjórnmálamenn myndu leysa málin.
„Það er stundum sagt að stjórnmálamenn skilji ekki atvinnulífið og alltof oft er mjög mikið til í því, en ég myndi bæta við að viðskiptalífið skilur ekki pólítíkina og það er ekki síður algengara,“ sagði Sigmundur og bætti við að atvinnulífið ætti að vera vakandi fyrir pólitískum ákvörðunum og ekki láta sig dreyma um að stjórnmálamenn muni alltaf finna lausn á þeim málum sem snúa að atvinnurekstri.
Sigmundur tók dæmi um þegar Evrópusambandið ætlaði að leggja á Íslandi ný græn gjöld fyrir flug og flutninga, sem myndu draga úr ferðum og flutningum milli landa.
„Þetta var mál sem við áttum ekki að taka því við erum ekki hluti af loftslagsmálum Evrópusambandsins, það er ekki hluti af EES-samningum,“ sagði Sigmundur og bætti við að ráðherrar og stjórnmálamenn hefðu sagt að málið væri ekki mikið og að það myndi leysast. „Viðskiptalífið vildi bara ekki vera til vandræða og trúði því að stjórnmálamennirnir myndu leysa þetta,“ sagði hann.
Sigmundur sagði að einhverjir ráðamenn hefðu farið á fund með forstöðumönnum fyrirtækja og lofað þeim að ræða við Evrópusambandið og útfæra undanþágur.
„Svo er farið og náð í Ursula Von der Leyen [forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins] út á Reykjavíkurflugvöll og farið með hana í ráðherrabústaðinn til að tilkynna að það sé búið að gera samkomulag um að Ísland fái undanþágu. Ég reyndi að segja: „Það er reyndar ekki rétt, það er frestun í tvö ár og síðan tekur þetta fullu gildi.““
Sigmundur benti á að það væri oft sama sagan, fyrirtækin væru of bjartsýn og treystu á að stjórnmálamenn myndu bjarga þeim.
„Fólk í atvinnurekstri vill bara fá að einbeita sér að sínu og vera látið í friði og forðast því að taka slaginn líkt og í þessu máli. Og nú er verið að auglýsa eftir tveimur nýjum loftlagsinnheimtumönnum til að framfylgja þessu og reyna ná sem mestum sköttum af landsmönnum og draga sem mest úr flugi og flutningum,“ sagði Sigmundur og bætti við: „Síðan gerist það sama alltaf aftur: Hvernig gat þetta gerst?“
„Já, þetta stóð bara í pakkanum. Það stóð á umbúðunum: „Þetta er til þess að hamla flutningum og flugi með því að setja meiri álögur,“ sagði Sigmundur og útskýrði hvernig ákvörðun Evrópusambandsins væri augljós frá upphafi en enginn virðist hafa áttað sig á því fyrr en núna.
Sigmundur fór einnig yfir Borgarlínuna og benti á að nú væri fólk og fyrir að átta sig á að hún tengdist þeim hugsunarhætti sem vill þrengja að umferðinni.
„Nú eru menn allt í einu eftir öll þessi ár byrjaðir að uppgötva að þau ætla bara að láta þetta verða að veruleika. Er þetta virkilega þannig að það eigi að þrengja að umferðinni? Og Suðurlandsbraut á bara að vera ein akrein í hvora átt? Rústa rekstrargrundvelli fyrirtækjanna og verðmæti húsanna við Suðurlandsbraut?“ sagði Sigmundur og bætti við: „Jájá! Það kom fram í leiðbeiningunum um Borgarlínuna að hún væri til að þrengja að umferðinni, fækka bílastæðum og neyða fólk upp í Borgarlínuna.“
„Þetta var bara útskýrt,“ sagði Sigmundur og útskýrði hvernig þessi nálgun hefði alltaf verið fyrir hendi en ekki verið tekin alvarlega fyrr en núna. „Svo erum við voða hissa núna. Hvernig gat þetta gerst? Það var bara straujað yfir mitt hverfi,“ bætti hann við og hló með salnum.
Sigmundur ákvað síðan að ræða gímaldið að lokum en ekki gímaldið í Álfabakkanum sem hefur verið á allra vörum.
„Þetta gímald þarna, sem var byggt á versta stað. Á umferðareyju. Hvað heitir þetta hús aftur? Nýi Landspítalinn, já,“ og framkallaði hlátur í salnum. „Það vissu allir í hvað stefndi. Það vissu það allir. Maður reyndi bæði í ríkisstjórn og fyrir utan hana að hamast á þessu. En það var alltaf sagt, jafnvel áður en það var búið að taka fyrstu skóflustunguna, að auðvitað væri þetta tóm vitleysa. Auðvitað átti að byggja nýjan spítala á betri stað og gera það hraðar og betra. En það var bara búið að eyða svo miklum tíma og kostnaði í undirbúa þetta,“ sagði Sigmundur.
„En þið þurfið að bakka þennan mann upp“
Í lok ræðu sinnar þakkaði Sigmundur Birni Brynjúlfi Björnssyni, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs, fyrir hans vinnu og framlag til að vekja athygli á hagsmunum atvinnulífsins. „En þið þurfið að bakka þennan mann upp,“ sagði Sigmundur og gaf salnum áheyrn fyrir þessa hvatningu.
Sigmundur Davíð hvatti íslensk fyrirtæki því til að taka virkan þátt í umræðu og ákvarðanatöku um framtíð atvinnulífsins og láta ekki stjórnmálamenn einir ákvarða hvernig skuli með þau fara.
Ég taldi rétt að hætta mér í smá raunheimatal á Viðskiptaþingi. pic.twitter.com/Xsw2Oa6AR7
— Sigmundur Davíð (@sigmundurdavid) February 14, 2025