Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, segist undrandi á ákvörðun borgarstjórnar um að banna einkaþotur og þyrlur á Reykjavíkurflugvelli ásamt þeirri stefnu að finna þurfi nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflugvélar.
Hið umrædda bann var samþykkt á fundi borgarstjórnar í vikunni en tillagan var lögð fram af Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur, borgarfulltrúa Viðreisnar.
Samþykkt bannsins þýðir hins vegar ekki að einkaþotum og þyrlum sé nú meinað lendingu og starfsemi á flugvellinum, heldur kveði bannið á um áframhaldandi viðræður í náinni framtíð við viðeigandi aðila.
Í tillögunni er vitnað í samkomulag sem gert var árið 2013 og var undirritað af þáverandi borgarstjóra, Jóni Gnarr og Hönnu Birnu, þáverandi innanríkisráðherra. Þar er kveðið á um að innanríkisráðuneytið og Isavia muni hafa forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar.
Matthías segir að hið umrædda samkomulag frá 2013 eigi sér þó rætur að rekja í bókun sem gerð var um aldamótin þegar Reykjavíkurflugvöllur var endurbyggður.
„Upphaflega samkomulagið, sem er alltaf verið að vísa í, fjallar ekkert um flutning á kennsluflugi. Þar kemur einungis fram að það eigi að flytja snertilendingar á annan flugvöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.“
Hann segir að í kjölfar þeirra umræðna hafi flugbrautin á Sandskeiði fengið bundið slitlag árið 2008 og var sá flugvöllur síðan notaður fyrir snertilendingar. Eftir það hafa snertilendingar á Reykjavíkurflugvelli orðið rúmlega tífalt færri.

„Með öðrum orðum eru snertilendingar á þessum flugvelli í engu samræmi við það sem þær voru þegar samkomulagið var gert og er ríkið í raun búið að uppfylla þetta samkomulag. Ég skil því ekki hvers vegna það er alltaf verið að vísa í þessa bókun vegna þess að þetta er nú þegar úr sögunni.“
Fáir valkostir í boði
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir var spurð af blaðamanni mbl hvaða staðsetning gæti mögulega hentað einka-, þyrlu- og kennsluflugi ef Reykjavíkurflugvöllur kæmi ekki til greina. Hún sagði að einkaþotur og þyrlur gætu notast við Keflavík en hafði enga skoðun á kennsluflugi.
Matthías segir að það sé ekki raunhæft að flugskóli deili Keflavíkurflugvelli með flugfélögum og að það hafi meðal annars þegar verið reynt.
„Keilir reyndi að starfrækja flugkennslu á Keflavíkurflugvelli en það gekk ekki upp, bæði vegna þess að það fer illa saman við millilandaflug og líka vegna takmarkanna þar sem ekki er hægt að fljúga á ákveðnum tímum.“
Hann bætir við að fjarlægð og aðstaða Keflavíkurflugvallar sé ekki heppileg fyrir flesta flugnema sem búa í Reykjavík þar sem hátt í tveggja tíma akstur og öryggisleit myndi bætast ofan á nám sem nánast enginn flugnemi fær námslán fyrir.
„Langflestir flugnemar á Íslandi eru að sinna einhverju öðru samhliða flugnáminu vegna þess að það er svo erfitt að treysta á veðrið. Það eru líka flestir nemar sem þurfa að fjármagna flugnámið á eigin vegum. Þetta er bara hreinlega ekki hugsað til enda.“
Matthíasi finnst það líka skrýtið að ríkisstjórn, sem talar mikið fyrir því að það eigi að fara betur með fé, vilji vannýta Reykjavíkurflugvöll og þess í stað byggja upp aðra aðstöðu fyrir háar fjárhæðir.
Forgangur og hávaði
Þegar kemur hins vegar að málefnum einka- og þyrluflugs við Reykjavíkurflugvöll segir Þórdís Lóa í samtali við Viðskiptablaðið að tilgangur bannsins sé fyrst og fremst að tryggja sjúkra- og áætlunarflugi forgang næstu 15 árin.
„Það sem er aldrei sagt er að síðastliðin 15 ár hefur umferðin á Reykjavíkurflugvelli gjörbreyst. Það hefur ekkert breyst varðandi kennsluflug en fjöldi einkaþotna og þyrla fyrir ferðamenn hefur margfaldast. Það er frábært að fá ferðamenn en þyrlurnar og einkaþoturnar geta verið annars staðar.“
Þórdís segir að margar af þeim einkaþotum sem lenda á Reykjavíkurflugvelli beri ekki nema einn til tvo farþega. Í ljósi fjölgunar einkaþotna þurfi þá að tryggja að sjúkraflug, áætlunarflug og Landhelgisgæslan hafi fullan forgang í framtíðinni.
Viðskiptablaðið sendi fyrirspurn á Isavia til að fá nákvæma tölu um fjölda einkaþotna sem hafa lent á Reykjavíkurflugvelli undanfarin ár. Í svari frá Isavia segir að það sé hins vegar ekki hægt að mæla þá umferð þar sem engin ein skilgreining sé til á því að teljast vera einkaþota.
Í fylgiskjali frá Isavia segir hins vegar að hreyfingar frá almannaflugsþotum á Reykjavíkurflugvelli hafi verið 532 árið 2021, 777 árið 2022 og 659 árið 2023. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 var fjöldi hreyfinga 234.
Þórdís Lóa minnist einnig á hljóðmengun en með þéttingu byggðar undanfarin ár hefur sú umræða margoft komið upp í tengslum við starfsemi Reykjavíkurflugvallar.
Matthías segir að samkvæmt tölum frá Isavia hafi flestar hávaðakvartanir einskorðast við þyrluflug í tengslum við það eldgos sem gaus í júní 2023. Ári seinna, í ágúst 2024, hafi þó kvartanir fækkað um 80%.

„Kvartanir höfðu líka borist frá Kársnesi árið 2023 en voru svo engar árið 2024. Það sem breyttist í millitíðinni var að þyrlufyrirtækin byrjuðu að haga aðflugi og brottflugi öðruvísi en þau höfðu gert áður og pössuðu sig líka á að fljúga ekki beint yfir íbúðabyggð.“
Hann segir flugsamfélagið passi sig mjög mikið á því að leggja sig fram þegar kvartanir berist og minnist einnig á að flugskólar hafi fært snertilendingar og fjárfest í hljóðminni flugvélum fyrir kennsluflug.
Þyrlur og einkaþotur
Samkvæmt tölum frá Isavia hefur hlutfall þyrla á Reykjavíkurflugvelli stóraukist. Árið 2019 samsvaraði hlutfall þyrla á flugvellinum 8,1% allra flughreyfinga en árið 2024 var hlutfallið komið upp í 23,2%.
Matthías segir að þyrlufyrirtækin hafi hingað til verið opin fyrir því að færa starfsemina og hafa þau meðal annars óskað eftir lóðum annaðhvort á Hólmsheiði eða á Sandskeiði.
„Það hefur hins vegar verið Reykjavíkurborg sem hefur dregið lappirnar í því máli ef og þeim er svona annt um borgarana þá hefði verið búið á útvega þeim lóð en það hefur ekki gerst í allan þann tíma sem þau hafa verið að kalla eftir því. Þetta er bara alveg glötuð pólitík.“
Aðspurð um þær óskir segir Þórdís Lóa það vera möguleiki en Hólmsheiði fellur undir stjórn Reykjavíkurborgar á meðan Sandskeiði er á borði Kópavogsbæjar.
Hjalti Guðmundsson, eigandi Iceland Aero Agents, segist skilja ónæðið sem komi frá bæði þyrlum og einkaþotum en bætir við að þegar kemur að reglugerðum þá séu fáir flugvellir með jafn margar takmarkanir og Reykjavíkurflugvöllur.
„Flugvöllurinn er bara opinn frá 7:00-23:00, sem þýðir að það er ekkert ónæði utan þess tíma. Undanfarið ár hafa komið enn fleiri reglugerðir en það er til dæmis búið að stytta APU-notkun og beina flugumferð í aðrar áttir.“
Hjalti segir að það væri mikill missir fyrir Reykjavík að missa einkaþotur en fyrirtækið Iceland Aero Agents þjónustar margar af þeim einkaþotum sem lenda á Reykjavíkurflugvelli.
Hann segir að þeir kúnnar sem mæta á einkaþotum séu nákvæmlega þeir lúxusferðamenn sem margir hafa viljað hvetja til að koma til Íslands til að koma til móts við bakpokaferðamennskuna.