Í tilefni Mannauðsdagsins sem fór fram í Hörpu í dag kynnti Origo nýja lausn í launagreiningum sem væntanleg er á markað í byrjun næsta árs.

Lausnin sem um ræðir ber heitið Rúna launavakt og mun koma til með að færa fyrirtækjum nýjustu launaupplýsingar á markaði, á aðgengilegan og skiljanlegan hátt. Rúna er frábrugðin öðrum sambærilegum lausnum á markaði á þann hátt að öll gögn eru byggð á órekjanlegum launagögnum frá samstarfsfyrirtækjum Rúnu, sem uppfærð eru mánaðarlega.

Í tilkynningu segir að algengt vandamál stjórnenda fyrirtækja vera að launasamtöl séu eins og völundarhús og að gögnin séu annaðhvort ekki nægileg eða fljót að vera úrelt. Að sögn Origo mun Rúna launavakt veita launagreiðendum aukið öryggi inn í launasamtöl og ráðningar ásamt fullvissu um að bjóða samkeppnishæf laun.

„Ég er á því að þetta muni umbylta launaumræðu á Íslandi. Fyrirtækin hafa miklu betri forsendur til að taka launaviðtal og í nýráðningum. Þetta er í rauninni réttlætismál. Við fundum fyrir mikilli vöntun á áreiðanlegu tóli til þess að leita að ferskum og sanngjörnum launaupplýsingum,“ segir Kjartan Jóhannsson, BI ráðgjafi hjá Origo.