Endurgreiddur kostnaður alþingismanna vegna utanlandsferða á síðasta ári nam rúmlega 48 milljónum króna á verðlagi dagsins í dag. Kostnaðurinn dróst saman um 35% frá fyrra ári er þingmenn ferðuðust alls út fyrir landsteinana fyrir tæplega 74 milljónir króna. Fyrir utan heimsfaraldursárin 2020 og 2021 hefur kostnaðurinn ekki verið lægra frá árinu 2017, er hann nam tæplega 31 milljón á gengi dagsins í dag.

Tölur um ferðakostnað þingmanna ná aftur til ársins 2007 en frá þeim tíma og fram til síðasta árs var ferðakostnaðurinn langhæstur árið 2008, árið sem fjármálakerfið lagðist á hliðina og botninn hrundi úr gengi krónunnar. Það ár ferðuðust þingmenn erlendis fyrir alls tæplega 123 milljónir króna á gengi dagsins í dag. Árið 2012 kemur þar á eftir en þá ferðuðust þingmenn fyrir tæplega 87 milljónir. Fast á hæla þess árs fylgir svo 2015 með erlendan ferðakostnað upp á rétt rúmlega 84 milljónir. Árið 2023 var svo fjórða dýrasta ferðaárið með kostnað upp á tæplega 74 milljónir.

Viðbúið var að erlendur ferðakostnaður þingmanna myndi lækka á milli áranna 2023 og 2024 þar sem að í kynningu Bjarna Benediktssonar, þáverandi fjármálaráðherra, á fjárlagafrumvarpi ársins 2024 kom fram að ferðakostnaður opinbers starfsfólks yrði skorinn niður um hálfan milljarð.

Þess ber að geta að þeir þingmenn sem gegna ráðherraembætti eru ekki með í þessum tölum og má því ætla að ráðuneytin hafi staðið straum af kostnaði þeirra við utanlandsferðir í opinberum erindagjörðum, ef einhverjar hafa verið.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér og lesið fréttina í heild hér.