Sigurður Kári Kristjáns­son, lög­maður og fyrr­verandi Alþingis­maður, segir ljóst að verði veiði­gjalda­frum­varpið að lögum muni það enda hjá dómstólum.

Hann telur afar ólík­legt að það muni standast lög að miða álagningu skatts út frá öðru en skattand­laginu sjálfu.

„Hverjar verða af­leiðingarnar ef dómstólar telja álagningu nýju veiði­gjaldanna ekki standast?

Gefum okkur að ríkis­stjórnar­meiri­hlutanum takist að fá veiði­gjalda­frum­varp sitt samþykkt sem lög frá Alþingi.

Verði það niður­staðan má slá því föstu að ein­hverjar út­gerðir láti a.m.k. á það reyna fyrir dómstólum hvort út­reikningur á álögðu veiði­gjaldi sam­kvæmt frum­varpinu og grund­völlur þess út­reiknings standist lög,“ skrifar Sigurður Kári.

Þar á Sigurður við hvort það standist að miða álagningu skatts út frá öðru en skattand­laginu sjálfu, þ.e. að reikna álagðan skatt, sem byggir á nýtingu auðlindar við Ís­land, út frá verðmæti sem fæst við nýtingu annarrar auðlindar í öðru landi, þ.e. í Noregi.

„Sjálfum finnst mér alls ekki aug­ljóst að dómstólar myndu fallast á að slíkar að­ferðir við álagningu skatta hér á landi teldust lög­mætar. Þótt dómstólar hafi talið löggjafann hafa tals­vert svigrúm þegar kemur að skatt­lagningu, þá er það svigrúm ekki án tak­markana,“ skrifar Sigurður.

Þetta sést með skýrum hætti í dóms­for­sendum í auð­legðar­skattsmálinu svo­kallaða og í máli Vinnslu­stöðvarinnar vegna veiði­gjaldsins. „En bæði þessi mál má rekja til verka síðustu vinstri­stjórnar,“ skrifar Sigurður.

„Alþingis­menn hafa sannar­lega verið varaðir við þessum mögu­leika í um­sögnum um frum­varpið.

Hafandi sjálfur býsna mikla reynslu, bæði af laga­setningu og mála­rekstri fyrir dómstólum, liði mér a.m.k. ekki vel ef ég stæði að skatt­lagningu eins og þessari þar sem grund­völlur fyrir lög­mæti skatt­heimtunnar væri ekki traustari en þetta,“ skrifar Sigurður.

Hann spyr af þeim sökum: Hvað ætlar ríkis­stjórnin að gera komist dómstólar að þeirri niður­stöðu að sú að­ferð við út­reikning og álagningu skatts sem frum­varpið mælir fyrir um standist ekki lög?

„Hjá því verður ekki komist að spyrja þessarar spurningar enda hefur frum­varpið af ýmsum ástæðum sætt harðri gagn­rýni, einkum af lands­byggðinni. Á móti hefur ríkis­stjórnin lagt allt undir til þess að ná því í gegnum þingið og látið önnur mál og mikilvægari, eins og mennta­málin og húsnæðis­málin, mæta af­gangi.

Það hlýtur því að hafa ein­hverjar af­leiðingar verði niður­staðan sú að dómstólar komast að þeirri niður­stöðu að þessi skatt­lagning standist ekki lög og í ljós kemur að öll baráttan og lætin í kringum þetta mál var til einskis,“ skrifar Sigurður.

Hann spyr þá einnig hverjar af­leiðingarnar verða?

- Mun ríkis­stjórnin segja af sér og boða til kosninga?

- Verður ráðherrann sem fer fyrir málinu látinn sæta ábyrgð?

- Eða ætlar ríkis­stjórnin að byrja upp á nýtt?

„Síðast­nefndi mögu­leikinn kemur aug­ljós­lega ekki til greina. Ríkis­stjórnin getur ekki byrjað upp á nýtt og látið eins og ekkert hafi í skorist.

Eftir standa þá hinir tveir, nema hér verði bent á aðra kosti sem í boði verða við slíkar aðstæður.

Ég er reyndar ekki í vafa um að á slíka kosti bent því í hvert skipti sem ég opna munninn á þessum vett­vangi mæta helstu varð­hundar ríkis­stjórnarinnar og taka til harðra varna fyrir sitt fólk.

Ég vona að þeir breyti ekki út af vananum og stigi fram og út­skýri fyrir mér hvað ríkis­stjórnin gæti tekið til bragðs ef þetta verður niður­staðan,“ skrifar Sigurður Kári.