Ráðstefna Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) mun fara fram dagana 19.-22. maí nk. á Balí í Indónesíu. Fulltrúar frá Íslandi verða viðstaddir ráðstefnuna en Alþingi tekur þátt í starfi átta alþjóðlegra þingmannasamtaka og er Alþjóðaþingmannasambandið eitt af þeim.

Hildur Sverrisdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson verða bæði viðstödd fyrir hönd Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.

Ráðstefna Alþjóðaþingmannasambandsins (IPU) mun fara fram dagana 19.-22. maí nk. á Balí í Indónesíu. Fulltrúar frá Íslandi verða viðstaddir ráðstefnuna en Alþingi tekur þátt í starfi átta alþjóðlegra þingmannasamtaka og er Alþjóðaþingmannasambandið eitt af þeim.

Hildur Sverrisdóttir og Jóhann Friðrik Friðriksson verða bæði viðstödd fyrir hönd Íslandsdeildar Alþjóðaþingmannasambandsins.

Ráðstefnan er í boði indónesíska þingsins í þetta sinn en formlegt heiti ráðstefnunnar er Alþjóðaþingmannasambandsfundur í tilefni af 10. heimsvatnsmálþingi (e. Parliamentary Meeting on the occasion of the 10th World Water Forum). Samkvæmt dagskrá ráðstefnunnar er markmiðið að hvetja til vatnsaðgerða á þingum fyrir sameiginlega velmegun.

Sambandið greiðir fyrir aðgang þingmanna að ráðstefnunni en í fyrirspurn Viðskiptablaðsins um kostnað ferðarinnar segir í svari frá fulltrúa fjármálaskrifstofu Alþingis að kostnaður við ferðina sjálfa liggi ekki fyrir að svo stöddu.

„Alþjóðastarf af þessu tagi sé hins vegar veigamikill hluti af starfsemi Alþingis líkt og annarra þjóðþinga og hafi verið um árabil. Þingmönnum ber að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi en kosið er í alþjóðanefndir á þingsetningarfundi og gildir kosningin allt kjörtímabilið. Alþingi tekur þátt í átta alþjóðlegum þingmannasamtökum sem hver um sig hafa skýrt skilgreind markmið og málefnasvið. Þar á meðal Alþjóðaþingmannasambandið (IPU) sem flest þjóðþing heims eiga aðild að. Markmið sambandsins er að vinna að friði og samstarfi meðal þjóða og treysta lýðræði og þjóðkjörin fulltrúaþing í sessi,“ segir í svari frá fulltrúa.

Ráðstefnan verður haldin í Bali Nusa Dua Convention Center við Nusa Dua-strönd á suðurhluta eyjunnar. Skipuleggjendur mæla með að hvert þing sendi fulltrúa sem starfi beint að vatnsmálum, heilsumálum, loftslagsmálum og málefnum sjálfbærrar þróunar.

Dagskráin hefst sunnudaginn 19. maí við komu fulltrúa og í tilefni af því mun H.E Joko Widodo, forseti Indónesíu, bjóða til hátíðarkvöldverðar að lokinni skráningu fulltrúa.

Á mánudaginn verður svo opnunarhátíð frá 8:30 um morguninn sem lýkur með myndatöku og hádegisverði frá 12:15-13:30. Eftir það taka við málþing þar sem vatnssjálfbærnimálefni verða rædd í tengslum við lýðheilsu, menntun og loftslagsmál.

Jatiluwih-hrísgrjónaakrarnir eru einn af topp tíu ferðamannaáfangastöðum á Balí.
© Wikimedia Commons (Wikipedia)

Á þriðjudaginn verður rætt í einn og hálfan tíma um það hvernig vatnsskortur tengist átökum og ógni friði í heiminum. Eftir það munu fulltrúar heimsækja Jatiluwih-hrísgrjónaakrana í um 65 km fjarlægð frá ströndinni en þeir eru taldir vera einn af topp tíu ferðamannaáfangastöðum á Balí.

Akrarnir eru um 53 þúsund hektarar á stærð og eru í dag á heimsminjaskrá UNESCO. Þar munu fulltrúar fá tækifæri til að læra um hið hefðbundna vatnskerfi sem notað er á Balí áður en fulltrúarnir snúa aftur heim daginn eftir.