Maria Jimenez Pacifico, eigandi kólumbíska matarvagnsins Mijita, mun bráðum koma til með að bjóða upp á meira en Empanadas og Arepas. Hún hefur samið við kólumbísku ríkisstjórnina um leyfi til að flytja inn þjóðardrykkinn frá heimalandi sínu, Aguardiente.

Drykkurinn er áfengur með 29% styrkleika en að sögn Mariu drekka heimamenn drykkinn eins og vatn. Nafnið Aguardiente þýðir einfaldlega brennandi vatn.

„Mijita er menningarbrú milli Íslands og Kólumbíu, ekki bara hvað varðar mat heldur líka drykki. Það kom ekkert annað til greina fyrir okkur en að fara í samstarf með þjóðardrykk Kólumbíumanna,“ segir Maria.

Fyrirtækið sem framleiðir drykkinn er í eigu kólumbíska ríkisins og segir Maria að það eigi það ekki til að fara í samstarf með hverjum sem er. „Þetta ferli tók meira en eitt og hálft ár til að verða að veruleika þannig ég er mjög stolt af þessu og þetta er risastór árangur fyrir Mijita.“

Samstarfið nær þó yfir fleiri drykki líka og verða drykkjarvörur frá Kólumbíu, Venesúela, Mexíkó og Panama bráðum fáanlegar á Íslandi.

„Við viljum gefa Íslendingum tækifæri til að kynnast sem mest af matarmenningarheimi Kólumbíu og Suður-Ameríku svo það er náttúrulegt skref fyrir okkur að hefja innflutning á og dreifingu á áfengi.“