Leiðtogafundurinn Forum on China-Africa Cooperation (e. FOCAC) hefst á morgun í Peking og stendur yfir í tvo daga. Þjóðarleiðtogar frá Afríku og Kína munu funda saman og kortleggja alþjóðlega samvinnu á komandi árum.
Þetta verður einnig stærsti diplómatíski viðburður sem Kína hefur staðið fyrir í nokkur ár en síðasta FOCAC-ráðstefnan var haldin í Peking árið 2018.
Búist er við því að kínversk stjórnvöld muni hvetja þjóðarleiðtoga 50 Afríkuríkja til að flytja inn meira af kínverskum vörum í skiptum fyrir fleiri loforð um lán og fjárfestingar. Það gæti þó reynst erfitt þar sem Kínverjar hafa enn ekki uppfyllt fyrri loforð frá 2021 um að kaupa 300 milljarða dala af vörum frá Afríku.
Það má einnig búast við auknum þrýstingi frá leiðtogum Afríkuríkja um það hvernig Kínverjar hyggjast ljúka við ókláruð innviðaverkefni eins og járnbrautarleiðina sem átti að tengja saman Austur-Afríkusvæðið.
Hingað til hefur Kína verið einn stærsti fjárfestir og lánveitandi í Afríku en þjóðin hefur hægt og rólega verið að draga saman seglin þegar kemur að stórum fjárfestingarverkefnum. Þess í stað hefur stefnan verið að flytja út háþróaða og umhverfisvæna tækni.
Í ljósi þess að Bandaríkin hafa sett himinháa tolla á kínverska rafbíla má einnig búast við því að Kínverjar muni leggja áherslu á að finna nýja viðskiptavini á ráðstefnunni. Kínversk stjórnvöld hafa einnig skipt um gír þegar kemur að innviðaverkefnum og eru farin að byggja fleiri sólarorkuver, rafbílaverksmiðjur og 5G-aðstöðu í stað þess að byggja hafnir og brýr.
Samkvæmt gögnum alþjóðlegu þróunarstefnumiðstöðvarinnar við háskólann í Boston buðu kínversk stjórnvöld í fyrra upp á 13 lán til átta Afríkuríkja sem alls námu um 4,2 milljörðum dala.