Fjárhagsstaða Þjóðarsjóðs Sáda hefur versnað verulega á undanförnum árum, en stjórnendur hans virðast hafa spennt bogann full hátt þegar kemur að fjárfestingum.
Í fyrra lagði sjóðurinn hinni svokölluðu Línuborg til 48 milljarða dala, fjárfesti 100 milljörðum í örflögutækni og stofnaði nýtt flugfélag, Riyadh Air, svo dæmi séu tekin.
Samkvæmt The Wall Street Journal hafa öll þessi verkefni bitnað á lausafjárstöðu sjóðsins, en handbært fé í lok árs 2023 var ekki nema 15 milljarðar Bandaríkjadala sem er það lægsta frá því að sjóðurinn byrjaði að greina opinberlega frá fjárhagsstöðu sinni.
Þjóðarsjóðurinn hefur þurft í kjölfarið að taka lán til að geta fjármagnað öll fjárfestingaverkefnin, eitthvað sem sjóðurinn hefur bæði forðast og aldrei þurft að gera áður.
Samkvæmt heimildarmönnum WSJ Þá er einnig á döfinni risa hlutafjárútboð í krúnudjásni konungsfjölskyldunnar Saudi Aramco til þess að sækja meira fjármagn í sjóðinn.
Þjóðarsjóðurinn hefur verið notaður til að fjármagna draumsýn Krónprinsins Mohammed bin Salman sem heitir einu nafni Vision 2030 en verkefnið snýr að því að auka fjölbreytni í efnahag landsins.
Þjóðarsjóðurinn hefur einnig komið að fjármögnun ýmissa íþróttaverkefni í landinu eins og sameiningu LIV Golf og PGA- mótaraðarinnar samhliða því að borga himinhátt kaup knattspyrnumanna í sádiarabísku úrvalsdeildinni.
Sjóðurinn greiddi einnig 35 milljarða dala fyrir nýjar flugvélar frá Boeing og þá er á döfinni að fjárfesta í rafíþróttum fyrir 38 milljarða dala sem og byrja að framleiða rafbíla.
Ekkert jafnast þó á við Línuborgina Neom sem er ætlað að hýsa níu milljón íbúa en áætlað er að fasteignaverkefnið muni kosta um 500 milljarða Bandaríkjadala þegar upp er staðið.
Samkvæmt sérfræðingum sem The Wall Street Journal þarf sádíarabíska ríkið að leggja sjóðnum til hundruð milljóna dala á næstunni. Áætlað er að hallarekstur ríkisins verði um 21 milljarður dala í ár sem er um 2% af landsframleiðslu.
Sádí-arabíska ríkið greip til aðgerða í byrjun árs með tveimur veglegum skuldabréfaútboðum en ríkið kom fjárfestum verulega á óvart þegar það seldi bréf fyrir 12 milljarða dala í janúar nokkrum dögum eftir að hafa gefið það út að áætluð lánsfjárþörf fyrir árið í heild væri 9 milljarðar.
Nokkrum vikum seinna sótti þjóðarsjóðurinn svo einnig 5 milljarða dala með sama hætti.