Húsasmíðameistarinn og fjölmiðlamaðurinn Gunnlaugur Helgason staðfestir í samtali við Viðskiptablaðið að hann muni hætta sem kynnir í Bítinu á Bylgjunni í lok júní. Hann mun þá hafa gengt því starfi í heilan áratug.

„Þetta er búið að vera mjög skemmtilegur tími og ég hef náttúrulega haft frábæran samstarfsmann, sem er Heimir Karlsson. Það er búið að vera mjög gott samband á milli okkar og það verður mikil eftirsjá í því að hitta hann ekki á hverjum degi. En ég get kannski byrjað á því að hringja í hann á hverjum degi, eða hann í mig.“

Gulli segist vera að kveðja Bítið til að geta lagt meiri vinnu í sjónvarpsþættina sína Gulli Byggir.

„Mig langar að leggja meiri áherslu á sjónvarpsþættina mína Gulli Byggir og ég verð náttúrulega áfram með þá á Stöð 2. En þó ég sé hættur í Bítinu þá er ég ekkert endilega hættur í útvarpi. Ég ætla bara núna að einblína á yngsta barnið mitt, sem er Gulli Byggir."