Vogunarsjóðir vestanhafs hafa lengi verið gagnrýndir fyrir háar þóknanir en ný skýrsla frá LCH Investments varpar nýju ljósi á umfang vandans.
Samkvæmt skýrslunni hefur rúmlega helmingur heildarbrúttóhagnaðar fjárfesta í hefðbundnum vogunarsjóðum farið í þóknanir á síðustu tveimur áratugum.
Þetta er veruleg aukning frá um 30% á tímabilinu frá 1969 fram að aldamótum, segir LCH, sem ráðleggur fjárfestum á borð við Edmond de Rothschild.
„Þessi aukning á hlutfalli brúttóhagnaðar sem fer í þóknanir er augljóslega ekki fjárfestum í hag,“ segir Rick Sopher, stjórnarformaður LCH.
Frá annarri hlið litið hafa vogunarsjóðir skilað samtals 3,72 trilljónum Bandaríkjadala í hagnað frá seint á sjöunda áratugnum, en haldið eftir nær 1,8 trilljónum dala í þóknanir.
Þessi þróun endurspeglar að ávöxtun vogunarsjóða hefur dregist saman síðustu ár, á sama tíma og þóknanir, sérstaklega föst stjórnunargjöld, hafa aukist.
Algengt er að sjóðir taki 2% af eignum í stjórnunargjald ásamt 20% af hagnaði sjóðsins sem árangurstengda þóknun.
Sum stærri sjóðstýringarfyrirtæki, eins og Citadel, innheimta þó enn hærri þóknanir.
LCH birti þessar niðurstöður ásamt árlegri úttekt sinni á „stóru sjóðstjórunum“, þar sem vogunarsjóðir eru metnir út frá æviafkomu þeirra fyrir fjárfesta.
Helstu atriði skýrslunnar eru:
- D.E. Shaw í New York var efstur á lista 2024, með 11,1 milljarð dala í hreinan hagnað fyrir fjárfesta á síðasta ári.
- Citadel hélt stöðu sinni sem arðbærasti sjóðurinn frá stofnun, með 83 milljarða dala í heildarhagnað frá 1990. Árið 2024 skilaði sjóðurinn fjárfestum 9 milljörðum dala í hreinum hagnaði.
- Marshall Wace í London komst í fyrsta sinn á lista LCH með 4,5 milljarða dala í hreinan hagnað á síðasta ári og 29,5 milljarða dala frá stofnun árið 1997.
- Topp 20 sjóðirnir, sem meðal annars fela í sér Millennium Management, Bridgewater Associates og Elliott Management, stjórna um 20% af eignum greinarinnar en standa fyrir 32% af heildarhreinum hagnaði ársins 2024, samkvæmt mati LCH.
LCH notar margvísleg gögn, þar á meðal viðtöl við stjórnendur, endurskoðaðar skýrslur, stjórnendaskýrslur og aðrar trúnaðarupplýsingar til að taka saman skýrsluna.
Í opnu bréfi í fyrra krafðist hópur stórra fjárfesta breytinga á greiðslufyrirkomulagi sjóðstjóra.
Samkvæmt LCH halda topp 20 sjóðirnir eftir 34,3% af brúttóhagnaði sínum, minna en aðrir í greininni.
Þetta stafar af „hærri brúttóávöxtun, stöðugum eignagrunni og því að þeir forðast miklar lækkanir,“ segir Sopher.
Það er athyglisvert þar sem mörg fyrirtækjanna á topp 20 lista eru svokölluð fjölstjórnendafyrirtæki (e. multimanager firms), sem innheimta gjarnan rekstrarkostnað sjóðanna, þar á meðal bónusa og tækni, sem hluta af sérstöku þóknanakerfi.