Íslenska nýsköpunar- og hátæknifyrirtækið Thor Ice Chilling Solutions ehf. og norræna fjármálastofnunin Nefco (e. Nordic Green Bank) hafa undirritað lánasamning. Fjármögnunin nemur tveimur milljónum evra, eða tæplega 290 milljónum króna.

Thor Ice Chilling Solutions hlaut fyrst fjármögnun frá Nefco árið 2020 en þessi seinni lánasamningur mun bætast við fyrri fjármögnun félagsins.

Lausn fyrirtækisins vinnur að því að draga úr orkunotkun við kælingu fisks, fuglakjöts og annarra matvæla, samhliða því að hraða kælingu matvæla og auka geymsluþol sem dregur einnig úr matarsóun.

„Kælitækni Thor Ice gerir fyrirtækjum kleift að framleiða ískrapa á hagkvæmari hátt, en notkun ískrapa hraðar kælingu matvæla samanborið við hefðbundnar kæliaðferðir með vatni eða ís, sem dregur úr notkun vatns og orku,“ segir í tilkynningu.