Landeldisfyrirtækið Thor Landeldi, sem sérhæfir sig í landeldi á laxi, hefur lokið við hlutafjáraukningu að upphæð 4 milljarða króna í lokuðu útboði.

Hlutafjáraukningin var leidd af IS Haf fjárfestingum og fjórum af hluthöfum sjóðsins: Útgerðarfélagi Reykjavíkur, Birtu lífeyrissjóði, Lífeyrisþjónustu Íslandsbanka og Almenna lífeyrissjóðnum.

Tryggir fjármögnun næsta áfanga

Hlutafjáraukningin tryggir fjármögnun næsta áfanga hjá Thor landeldi sem snýr að uppbyggingu 4.750 tonna áframeldis við Þorlákshöfn. Von er á fyrstu slátrun á laxi haustið 2027.

Um er að ræða annan áfanga af fjórum, en félagið áformar uppbyggingu á 20.000 tonna landeldi á laxi.

„Fyrsta áfanga verkefnisins lýkur nú fyrir sumarið en hann er bygging á fullkominni seiðastöð sem annar seiðum fyrir allt að 20.000 tonna framleiðslu, ásamt viðamikilli undirbúningsvinnu í rannsóknum og leyfismálum fyrir verkefnið sem öll eru höfn,“ segir í tilkynningunni.

Forsvarsmenn Thor landeldis eru þeir Jónatan Þórðarson, Þórður Þórðarson og Halldór Ragnar Gíslason, en auk þeirra starfa Vignir Stefánsson og Sigurður Örn Jakobsson hjá félaginu, sem allir hafa reynslu á ýmsum sviðum fiskeldis.

Stjórn félagsins skipa Jónas Engilbertsson, Alex Vassbotten, Birna Einarsdóttir, Carl-Erik Arnesen og Hermann Kristjánsson.

Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance annaðist umsjón hlutafjáraukningarinnar.

„Við upphaflegu stofnendur Thor Landeldis erum eðlilega í skýjunum með þennan stuðning sem félaginu er sýndur af þessum öflugu og reynslumiklu fjárfestum. Við höfum átt afar gott samstarf við IS Haf í núverandi uppbyggingu sem hefur gengið vel og hlökkum til áframhaldandi uppbyggingar með þessum öfluga hluthafahópi.“ segir Halldór Ragnar Gíslason, framkvæmdastjóri Thor landeldis.

IS Haf fjárfestingar slhf. er sjóður sem stofnaður var í febrúar 2023 og er í rekstri Íslandssjóða hf. Sjóðurinn sem er 10 milljarðar króna að stærð fjárfestir í haftengdri starfsemi á breiðum grunni, allt frá útgerðum og fiskeldi yfir í hátækni, innviðauppbyggingu, markaðssetningu og sjávarlíftækni.

Stærstu fjárfestarnir í sjóðnum eru íslenskir lífeyrissjóðir ásamt Brimi hf. og Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. sem er kjölfestufjárfestir í sjóðnum. Í krafti meðfjárfestinga hluthafa og annarra fjárfesta er áætlað að fjárfestingageta IS Haf verði á bilinu 30 til 50 milljarðar króna. Sjóðurinn hefur einnig lokið fjárfestingum í Kapp ehf, Regenics AS og NP Innovation AB.

„Það er mjög ánægjulegt að geta hafið framkvæmdir í byrjun sumars á fullfjármögnuðu áframeldi á laxi á sama tíma og seiðaeldisstöð félagsins hefur rekstur. Fagmennska við uppbyggingu seiðaeldisins og öflug samvinna sjóðsins og stofnenda hefur varðað veginn fyrir næstu áfanga Thor landeldis,“ segir Kristrún Auður Viðarsdóttir framkvæmdastjóri IS Haf fjárfestinga slhf.

„Við hjá ÚR sjáum Thor landeldi sem tækifæri til að styðja við sjálfbæra og hátæknivædda matvælaframleiðslu á Íslandi. Fjárfesting í landeldi er mikilvægt framlag til byggðar, atvinnulífs og vistvænnar framtíðar. Þróun landeldis er eitt af þeim sviðum þar sem Ísland getur orðið leiðandi á heimsvísu – og við viljum vera hluti af þeirri vegferð,“ segir Runólfur Viðar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur.