Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun um ákvörðun nefndarinnar að halda stýrivöxtum óbreyttum. Þar með hefur bankinn stöðvað vaxtalækkunarferlið en greiningaraðilar hafa spáð því að verðbólga fari allt í 4,6% í haust.
Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri, sagði að bankinn myndi ekki hika við að hækka stýrivexti ef þörf væri á blaðamannafundi í kjölfar vaxtaákvörðunar í morgun.
Bankinn ætli sér að ná verðbólgumarkmiði sínu, 2,5%, og ef vaxtahækkunar þyrfti til þess myndi bankinn hækka.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði að hagkerfið sé á réttri leið og skýr merki væru um kólnun.
„Við sjáum töluvert skýr merki um kólnun í kerfinu. Sérstaklega, til dæmis, hvað varðar sköpun nýrra starfa. Þannig að við álítum að þessi kælingarmeðferð, sem meðal annars er rekin af tiltölulega háum raunvöxtum, sé í raun og veru að duga.“
Ásgeir sagði að einkaneysla væri ekki að aukast mikið og minna en vöxtur tekna.