Flestir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins vildu sjá Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem nýjan formann Sjálfstæðisflokksins samkvæmt könnun Gallup, sem gerð var fyrir Þjóðmál dagana 27. september til 7. október.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir kom þar næst og Guðrún Hafsteinsdóttir var sú þriðja sem þátttakendur í könnuninni nefndu.

Spurt var: Hvaða einstakling myndir þú vilja sjá sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins?

Þátttakendur höfðu val um alla þá fimm sem gegnt höfðu embætti ráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn á síðasta kjörtímabili nema Bjarna Benediktsson. Hann tilkynnti sem kunnugt er sl. mánudag að hann muni ekki bjóða sig fram til endurkjörs á næsta landsfundi flokksins, sem ráðgert er að halda í febrúar.

Í fjórða sæti í könnuninni kom Guðlaugur Þór Þórðarson og sá fimmti og síðasti var Jón Gunnarsson.

Var ekki birt

Könnunin var gerð í kjölfar flokksráðsfundar Sjálfstæðisflokksins sem haldinn var í ágúst.

Þar sagðist Bjarni Benediktsson ætla að íhuga hvort hann myndi óskað eftir endurkjöri og tók fram að hann myndi upplýsa um það von bráðar.

Bjarni boðaði þann 13. október óvænt til kosninga og könnunin var ekki birt þegar ljóst varð að ekki yrði kosið um formann fyrir kosningar.

Staða Þórdís Kolbrúnar talin hafa veikst

Þeir sem rætt hafa við Viðskiptablaðið í dag um niðurstöður könnunarinnar telja að staða Þórdísar Kolbrúnar hafi veikst frá því að könnunin var gerð. Tvennt komi þar helst til skoðunar.

Annars vegar að hún hafi fært sig úr Norðvesturkjördæmi yfir í Suðvesturkjördæmi, þar sem hún hafði tapað stuðningi margra áhrifamanna í fyrra kjördæminu.

Hins vegar hafi hún fengið flestar útstrikanir í kosningunum. Hún skipaði annað sæti lista flokksins og strikuðu 591 kjósendur yfir nafn hennar, eða 3,94 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Hlaut hún töluvert fleiri útstrikanir en Bjarni Benediktsson sem hafði þá verið formaður í rúm 15 ár.

Viðmælendur blaðsins telja óvíst hvort að aðrir hafi styrkt stöðu sína eða veikt frá því að könnunin var gerð.

Staða Jóns Gunnarssonar vegna hvalamálsins var meðal annars nefnd og að líklegt væri að það hafi veikt stöðu hans, auk þess sem hann hlaut ekki kjör á Alþingi í nýafstöðnum kosningum þó hann komi inn á þing nú þegar Bjarni víkur úr stjórnmálum.

Könnunin var gerð fyrir Þjóðmál dagana 27. september til 7. október. Könnunin var netkönnun, úrtakið 1.726 og fjöldi svarenda 807 eða 46,8%.