Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi fjármálaráðherra, segir fagnar miklum áhuga á útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hún telur augljóst að næsta skref sé að selja meirihluta í Landsbankanum.

„Að selja Landsbankann eykur samkeppni og lagar skuldir ríkissjóðs, sem eru ekkert að lækka samkvæmt nýrri fjármálaáætlun, þrátt fyrir öll stóru orðin og fyrirheitin,“ skrifar Þórdís í færslu á Facebook.

„Bankarekstur er áhættusamur eins og dæmin sýna og engin af þeim ríkjum sem við berum okkur saman við komast nálægt okkur í ríkiseign á bönkum.“

Ólíklegt verður að teljast að núverandi ríkisstjórn Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins horfi til sölu á Landsbankanum. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra sagði í viðtali við RÚV í byrjun febrúar að það komi ekki greina að hennar mati að hefja sölu á Landsbankanum. Þá hefur Flokkur fólksins talað gegn einkavæðingu í bankakerfinu.

Einkaaðilar fullfærir um að stýra fjármálakerfinu

Þórdís segir ánægjulegt að almenningur og fjárfestar hafi haft mikinn áhuga á hlutum í Íslandsbanka. Það hafi verið eitt af meginmarkmiðum frumvarpsins um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf., sem hún lagði fram sem fjármálaráðherra í fyrra og útboðið nú byggir á.

Fjármálaráðuneytið tilkynnti fyrir skemmstu að ákveðið hefði verið að stækka útboðið og selja allan eftirstandandi 45,2% hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Þórdís segir það vera mjög gott fyrir ríkissjóð „og ekki síður fjármálakerfið sem einkaaðilar eru fullfærir um að stýra frekar en ríkið - sem á að einbeita sér að því að setja því rammann“.