Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra skrifar um mikilvægi einföldunar og hagræðingar í rekstri ríkisins í sérblaði Viðskiptablaðsins um Viðskiptaþing, sem kom út í morgun. Hún nefnir átta aðgerðir sem ríkið ætti ráðist í, þar á meðal að selja Íslandspóst og brjóta upp Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, ÁTVR.
Áskrifendur geta nálgast grein Þórdísar í heild sinni hér og sérblaðið Viðskiptaþing hér.
Umsvif hins opinbera með því mesta á heimsvísu
Þórdís segir að umsvif hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga á Íslandi séu með því mesta sem gerist á heimsvísu.
„Þetta er staðan þrátt fyrir að lífeyriskerfi okkar sé fullfjármagnað, framlög okkar til varnarmála eru skömmustulega lág og þjóðin er ung samanborið við mörg önnur ríki, og þar með heilsuhraustari en ella væri. Það er vilji til að gera betur og við höfum ekki val um óbreytt ástand til lengri tíma.“
Einokunarverslun ríkisins tímaskekkja
Þórdís telur að bjóða ætti alþjónustu póstsins út og selja Íslandspóst. Hún tekur fram að tryggja eigi áfram að alþjónusta sé veitt og greiða fyrir hana á svæðum þar sem markaðsbrestur er.
Þá ætti að brjóta upp ÁTVR og selja eignir ríkisfyrirtækisins svo að samkeppni sé tryggð. „Það er fullkomin tímaskekkja að ríkisvaldið standi í rekstri á einokunarverslun,“ skrifar Þórdís.
Meðal annarra aðgerða sem hún talar fyrir er sala á eftirstandandi 42,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka. Fyrirhugað er að selja hlutinn í almennu útboði, þar sem almennir fjárfestar munu njóta forgangs.
Ráðstafa á söluandvirði af eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka til að bregðast við eldsumbrotum nálægt byggð, til lengri og skemmri tíma, að sögn Þórdísar. Hún talar í þessu samhengi um áform um að koma á fót þjóðarsjóði sem yrði í raun hamfara- og áfallasjóður.
Trúir ekki á nauðsyn 164 ríkisstofnana
Þá vill Þórdís selja fasteignir og þróunarreiti í eigu ríkisins sem hafa enga menningarlega eða sögulega skírskotun og nýta söluandvirðið til að lækka skuldir ríkissjóðs. Jafnframt vill hún fækka stofnunum ríkisins.
„Það má einfalda, bæta og hagræða í rekstri ríkisstofnana. Ég trúi því ekki að 164 stofnanir séu nauðsynlegar. Þess vegna eigum við að sameina stofnanir,“ segir Þórdís.
„Sameining stofnana á að hafa þau markmið að hagræða annars vegar og bæta gæði hins vegar. Það fer saman í öllum samrunum. Hvers vegna er það þá þannig að nánast alltaf, hefur það fylgt sameiningum stofnana hjá hinu opinbera að það sé sjálfstætt markmið að starfsmannafjöldi haldi sér. Hvaða hagsmunir hafa orðið ofan á? Af þessari ástæðu hefur hagræðing verið takmörkuð og samruni einungis orðið að forminu til. Þetta er mjög óskynsamlegt og vonandi liðin tíð. Ríkið er fyrir fólkið, en ekki fólkið fyrir ríkið.“