Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru það félög tengd Þórði Má Jóhannessyni og Hreggviði Jónssyni sem seldu bréf í Festi fyrir 2,6 milljarða um þrjúleytið í dag.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fóru í gegn 2,6 milljarða króna viðskipti með bréf Festi á genginu 208 krónur í dag.
Viðskiptablaðið hefur ekki upplýsingar um hverjir voru á kauphliðinni en gengi Festi hefur hækkað um 12% síðastliðna tvo mánuði og var dagslokagengi félagsins 209 krónur í gær.
Samkvæmt hluthafalista Festi frá því í vor átti Stormtré ehf., sem er í meirihlutaeigu Hreggviðs, 7,1 milljón hluti í Festi sem jafngilti 2,36% eignarhlut þá. Brekka Retail ehf., sem er í 100% eigu Þórðar Más, átti 6 milljón hluti í vor sem jafngilti 1,99% hlut í Festi.
Viðskiptin um þrjúleytið í dag námu 12.350.924 hlutum í Festi.
Í febrúar á þessu ári lagði tilnefningarnefnd Festar til að Þórður Már tæki sæti í stjórn en í rökstuðningi nefndarinnar kom fram að hann hefði þekkingu og reynslu af rekstri og virkri fjárhagsskipan, væri langtímafjárfestir í Festi og þekki félagið vel.
Félag Þórðar Más, Brekka Retail, var þá meðal 20 stærstu hluthafa félagsins.
Skömmu síðar var þó greint frá því að tveir stærstu hluthafarnir, sem fara samanlagt með tæplega fjórðungshlut í félaginu, væru ósáttir með tilnefningu Þórðar Más.
LSR, stærsti hluthafi Festar, lýsti yfir vonbrigðum með störf tilnefningarnefndar og Brú Lífeyrissjóður, næst stærsti hluthafinn, sagðist mótfallinn því að hann tæki aftur sæti í stjórn.
Ekki fengust frekari skýringar þegar Viðskiptablaðið leitaði til þeirra í vor.