Þórður Már Jóhannesson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Gnúps, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna Lyfjablómsmálsins en Hæstiréttur hafnaði í lok síðustu viku að veita áfrýjunarleyfi á málinu eftir sýknudóm Landsréttar í nóvember sl.

Lyfjablóm ehf. höfðaði mál gegn Þórði Má og Sól­veigu Pét­urs­dótt­ir, fyrr­um dóms­málaráðherra, til heimtu skaðabóta vegna fjártjóns sem félagið taldi sig hafa orðið fyrir í viðskiptum með hlutafé Gnúps hf.

Stefnan byggði á því að Þórður Már hefði í störfum sínum sem forstjóri Gnúps brotið gegn hluthöfum félagsins.

Krafan á hendur Sólveigu sneri að því að hún situr í óskiptu dánarbúi Kristins Björnssonar, eiginmanns hennar, sem var í forsvari fyrir fjárfestingar sínar og þriggja systra sinna.

Saman áttu þau félagið Björn Hallgrímsson ehf. Árið 2006 varð BH, í gegn­um dótt­ur­fé­lög sín, ann­ar af kjöl­festu­fjár­fest­um fjár­fest­inga­fé­lags­ins Gnúps með 46% hlut og var það stærsta fjár­fest­ing fé­lags­ins. Töpuðust þeir fjár­mun­ir all­ir í árs­byrj­un 2008 þegar Glitn­ir tók yfir Gnúp og BH.

Nafni félagsins var síðar breytt í Lyfjablóm.

Son­ur Áslaug­ar, Björn Thor­steins­son, keypti Lyfja­blóm af Glitni fyr­ir nokkr­um árum og hef­ur hann síðan, með stuðningi for­eldra sinna, staðið í mála­ferl­um vegna rekst­urs fjöl­skyldu­fyr­ir­tæk­is­ins árin fyr­ir hrun.

Yfirlýsing Þórðar Más í heild sinni:

Björn Sch. Thorsteinsson hefur, í gegnum félagið Lyfjabóm ehf., nú í tæp átta ár staðið í málaskaki við mig og fleiri einstaklinga vegna atvika er urðu í tengslum við Fjárfestingafélagið Gnúp á árunum 2006 og 2007. Þá hefur hann farið mikinn í fjölmiðlum gagnvart mér með alvarlegum aðdróttunum, meðal annars um refsiverða háttsemi. Ennfremur hefur hann veist að endurskoðendum sem gáfu skýrslur fyrir dómi og kært þá til lögreglu ásamt því að sýna látnum manni óvirðingu. Hefur hann í þessum efnum átt greiðan aðgang að sumum fjölmiðlum sem og ritað greinar sem birst hafa á vefmiðlum.

Allar staðhæfingar Björns í tengslum við þessi mál eru fullkomlega tilhæfulausar. Það hafa dómstólar staðfest, fyrst með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júní 2022; þá með dómi Landsréttar 28. nóvember 2024, og loks nú með því að Hæstiréttur Íslands hafnaði því hinn 21. febrúar síðastliðinn að veita áfrýjunarleyfi á málinu til réttarins. Ég mun sem fyrr ekki elta ólar við svívirðingar Björns Sch. Thorsteinssonar í minn garð. Ég vísa einfaldlega til framangreindra dómsniðurstaðna. Þær tala sínu máli.

Þórður Már Jóhannesson