Þórður Már Jóhannesson, fjárfestir, og Sólveig Pétursdóttir, fyrrum dómsmálaráðherra, hafa verið sýknuð af 2,3 milljarða króna skaðabótakröfu Lyfjablóms ehf. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en mbl.is greinir frá þessu. Lyfjablóm er gert að greiða Þórði og Sólveigu 5 milljónir króna hvoru fyrir sig í málskostnað.
Málið hafði áður hlotið efnismeðferð fyrir héraðsdómi árið 2019 en þá voru Þórður og Sólveig sýknuð á grundvelli tómlætis og fyrningarlaga. Niðurstöðunni var áfrýjað til Landsréttar sem ómerkti dóm héraðsdóms. Málinu var því aftur vísað í hérað.
Sjá einnig: Vill 2,3 milljarða vegna Gnúpsfléttu
Stefnan gegn Þórði Má byggði á því að hann hefði í störfum sínum sem forstjóri Gnúps brotið gegn hluthöfum félagsins. Krafan á hendur Sólveigu sneri að því að hún situr í óskiptu dánarbúi Kristins Björnssonar, eiginmanns hennar, sem var í forsvari fyrir fjárfestingar sínar og þriggja systra sinna. Saman áttu þau félagið Björn Hallgrímsson ehf., eigenda Gnúps. Nafni félagsins var síðar breytt í Lyfjablóm.