Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI), segir tilvalið á þeim tímamótum sem 30 ára afmæli samtakanna marka að líta um öxl og minnast þess hve margt hefur breyst á síðustu þremur áratugum. „Þegar SI hóf starfsemi á grunni sex samtaka, sem þá runnu saman í ein, voru starfsgreinahóparnir innan samtakanna níu talsins en í dag eru þeir á milli fjörutíu og fimmtíu. Það sýnir einnig glögglega hve hröð framþróunin hefur verið að orðið hefur til nýr iðnaður, hugverkaiðnaður, sem hefur vaxið verulega á undanförnum árum. Sumar greinar hafa minnkað á þessu tímabili á meðan aðrar hafa stækkað og fjölmargar nýjar orðið til.“
Hann segir söguna einnig sýna hve skynsamlegt það var hjá þáverandi forystufólki í iðnaði að sameina krafta sína til að efla samkeppnishæfni iðnaðar á Íslandi og vinna að framþróun hans. Fleiri og fleiri hafi gengið til liðs við samtökin í gegnum tíðina og í dag eru aðildarfélög SI um 1.700 talsins. „Það hefur verið sérstaklega mikill vöxtur í nýskráningum í samtökin undanfarin tvö ár og hefur nýjum aðildarfélögum fjölgað um hátt í 350 á tímabilinu. Á móti hafa einhver fyrirtæki, af ýmsum ástæðum, gengið úr samtökunum. Þetta sýnir vel hve mikill áhugi er á starfi samtakanna. Fyrirtæki átta sig á því að það er mikilvægt að vera hluti af heild, hvort sem það er í hagsmunagæslunni hjá SI og því öfluga starfi sem unnið er hjá okkur eða þegar kemur að vinnumarkaðsmálunum hjá Samtökum atvinnulífsins.“
Sigurður segir að á þessum tímamótum sé ekki einungis vert að líta til þess sem vel hefur verið gert heldur sé einnig nauðsynlegt að horfa til framtíðar. „Iðnaðurinn hefur þróast mikið á síðustu þremur áratugum og ég er viss um að þróunin verði einnig veruleg næstu þrjátíu árin.“
Leiðarstefið í áherslum SI sé samkeppnishæfni og að rekstrarskilyrði iðnaðar séu með sem besta móti, á sama tíma og unnið sé að framþróun iðnaðarins. „Samkeppnishæfni byggir á nokkrum stoðum og okkar helstu áherslumál taka mið af því. Þessar stoðir eru mennta- og mannauðsmál, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi, en þar fellur m.a. undir gjaldtaka hins opinbera, eftirlit, leyfisveitingar og regluverk. Auk þess skipta orku- og umhverfismálin verulegu máli. Sá málaflokkur hefur á undanförnum árum og áratugum fengið vaxandi vægi og orðið sífellt stærri þáttur í rekstri fyrirtækja og í samfélaginu öllu. Þetta eru þær áherslur sem við horfum til varðandi samkeppnishæfnina og snýst vinna okkar að miklu leyti um að efla samkeppnishæfni. Þannig verða skilyrðin betri og fyrirtækin geta þá einbeitt sér að því sem þau eru best í – að þróa sínar vörur og þjónustu og skapa verðmæti.“
Áherslur SI hlotið góðan hljómgrunn
Aðspurður kveðst Sigurður ánægður með hvernig samtökunum hefur gengið að vinna að og koma áherslumálum á framfæri. „Áherslur SI hafa náð vel í gegn á síðustu árum. Þær eru oft á tíðum almennar og eiga sér breiða skírskotun sem kemur til vegna þess að iðnaðurinn er svo fjölbreyttur.“
Samskiptin við helstu hagaðila samtakanna hafi verið ákaflega góð og uppbyggileg og samstarf hafi leitt til framfara á mörgum sviðum, enda leggi samtökin mikið upp úr því að vera traustur samstarfsaðili sem geti klárað málin. „Stórstígar breytingar á skilyrðum og hvötum til nýsköpunar, sem hafi leyst mikla krafta úr læðingi er dæmi um það. Við höfum einnig séð jákvæðarr breytingar og þróun í menntamálum, sem dæmi í iðnnámi þar sem aðsóknin hefur aukist mikið á síðustu árum eftir að farið var í markaðssetningu og kerfisbreytingar. Að sama skapi hefur verið liðkað fyrir komu erlendra sérfræðinga til landsins sem var nauðsynlegt skref svo hugverkaiðnaðurinn gæti haldið áfram að vaxa og dafna. Þá höfum við séð aukna áherslu á innviðina og uppbyggingu og fjárfestingu í þeim. Þar var stofnun innviðaráðuneytisins mikilvægt skref fyrir samfélagið að því leyti að ábyrgðin á málaflokknum er nú á einum stað en ekki dreifð á mörg ráðuneyti. Upp á síðkastið höfum við svo lagt mikla áherslu á einföldun regluverks og vitundarvakning hefur orðið um skaðsemi þess að regluverk, sem er innleitt á Íslandi í gegnum EES, sé gullhúðað. Snúa þarf þeirri þróun við strax og endurskoða lög og reglur sem fela í sér óþarfa kröfur á íslenskt atvinnulíf. Loks er vert að minnast á að raforkumálin en sú kyrrstaða sem þar hefur verið uppi hefur fengið tímabæra athygli,“ segir Sigurður.

Nánar er fjallað um málið í sérblaði Viðskiptablaðsins um Iðnþing Samtaka iðnaðarins. Áskrifendur geta nálgast viðtalið í heild hér.