Dómsmálaráðherra hefur birt drög að frumvarpi sem ætlað er að auka skilvirkni og efla getu yfirvalda til að endurheimta ávinning af glæpum. Frumvarpið felur m.a. í sér breytingar á lögum um meðferð sakamála, almennum hegningarlögum og lögreglulögum en drögin voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í gær.
Að því er segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins er frumvarpið liður í að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar sem leiða má af þátttöku Íslands í alþjóðlega fjármálaaðgerðahópum um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, FATF (e. Financial Action Task Force).
Meðal annars er lagt til að stofnuð verði sérstök eining hjá embætti héraðssaksóknara sem „muni hafa leiðandi hlutverki að gegna á landsvísu við endurheimt ávinnings, til dæmis með aðstoð við lögregluembætti og með umsjón yfir haldlögðum og kyrrsettum eignum“.
Einnig eru ákvæði þess efnis að hægt verði að haldleggja eignir til tryggingar greiðslu sekta og sakarkostnaðar, að hægt verði að dæma einstaklinga til að greiða fjárhæð sem nemur ávinningi af broti ef haldlögð verðmæti duga ekki til, og að reglur um upptöku ávinnings gildi þó upptökuaðili sé látinn eða hann finnist ekki.
Þurfa ekki dómsúrskurð í tilteknum málum
Það vekur þó helst athygli að í frumvarpinu er að finna breyting á lögum um meðferð sakamála, sem fela í sér að fjármálafyrirtækjum sé skylt að veita lögreglu upplýsingar eða gögn, þótt þau séu háð þagnarskyldu. Forsendur þess eru að rannsókn beinist að broti sem geti varðað fjögurra ára fangelsi og ætla megi að upplýsingarnar hafi þýðingu fyrir rannsókn málsins.
Í greinargerð frumvarpsins er breytingin skýrð frekar en samkvæmt henni verður ekki þörf á dómsúrskurði til að afla slíkra upplýsinga þegar um tiltekin sakamál er að ræða. Umrædda breytingu megi rekja til úttektar FATF sem fór fram árið 2017 en þar kom frá gagnrýni á að afla þyrfti dómsúrskurðar, þar sem það gæti leitt til „óþarfa tafa“ á rannsóknum sakamála. Bent er á að 204 kröfur þess efnis hafi verið lagðar fyrir dómstóla á árinu 2024, af þeim hafi einni verið hafnað og níu samþykktar að hluta.
„Þegar fjármálakerfið er misnotað til að þvætta ávinning afbrota eru oft háar fjárhæðir sendar með skjótum hætti á milli bankareikninga. Það er því afar mikilvægur þáttur í meðferð ákveðinna mála, er varða skipulagða brotastarfsemi, að lögregla geti fengið upplýsingar um fjármálaupplýsingar fljótt og örugglega. Tafir á slíku aðgengi hindra greiningu lögreglu og geta valdið því að ekki takist að endurheimta ávinning af refsiverðri háttsemi sem hald ætti að leggja á,“ segir í greinargerðinni.
Jákvæð áhrif á ríkissjóð
Um mat á áhrifum segir að frumvarpið sé til þess fallið að auka á skýrleika viðkomandi lagaheimilda og gera haldlagningu og upptöku ávinnings af brotum skilvirkari. Þá muni það hafa áhrif á umsýslu og utanumhald á ólögmætum ávinningi við meðferð sakamála. Til lengri tíma verði endurheimt ávinnings markvissari og árangursríkari, einkum með tilkomu þess að unnt verður að láta einstaklinga sæta upptöku á ávinningi af broti í formi fjárkröfu.
„Munu þessar rýmkuðu heimildir til upptöku án efa leiða til jákvæðra áhrifa á ríkissjóð. Ekki gert ráð fyrir að lögfesting frumvarps þessa hafi að öðru leyti fjárhagsáhrif á ríkissjóð eða sveitarfélög.“