Veðbankinn Epicbet hefur snarlækkað stuðulinn á því að Þorgerður Katrín verði næsti forsætisráðherra. Fyrr í vikunni var stuðullinn 10, en hann er nú 5,5.

Það þýðir jafnframt að líkurnar á því að hún verði forsætisráðherra hafa farið úr 10% í 18%.

Tvær skoðanakannanir voru birtar í dag, frá Maskínu og Prósent. Í þeim mældist fylgi Viðreisnar annars vegar 13,4% og hins vegar 14,1%. Í síðustu Alþingiskosningum hlaut Viðreisn 12,6% fylgi.

Fyrr í vikunni mátu veðbankar Bjarna Benediktsson þriðja líklegastan til að verða næsta forsætisráðherra, en Þorgerður Katrín hefur nú farið fram úr sínum gamla flokksfélaga.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 14,1% fylgi hjá Maskínu og 15,6% hjá Prósent. Þá er ómarktækur munur á fylgi Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar.

Kristrún enn langlíklegust

Veðbankar telja enn Kristrúnu Frostadóttur líklegasta til að verða næsti forsætisráðherra. Samfylkingin mælist með 21,9% fylgi hjá Maskínu og 24,8% hjá Prósent.

Fylgið hefur þó dalað lítillega og stuðullinn á Kristrúnu hækkað í takt við kannanir. Líkurnar á því að Kristrún verði næsti forsætisráðherra mælast 37%, en stuðullinn hefur hækkað úr 2,5 í 2,7.

Á eftir Kristrúnu kemur Sigmundur Davíð með stuðulinn 4,5, líkt og fyrr í vikunni.

Þá mælist Sigurður Ingi nú ögn líklegri til að verða næsti forsætisráðherra en fyrr í vikunni. Hann tilkynnti í dag að hann hygðist taka 2. sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi, en Halla Hrund Logadóttir, fyrrum orkumálastjóri og forsetaframbjóðandi, býður sig fram í oddvitasætið.