Hæstiréttur hefur hafnað kröfu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja, um dómkvaðningu matsmanns til að rannsaka efni harðra diska með gögnum sem safnað var við húsleit Seðlabankans og sérstaks saksóknara hjá Samherja í mars 2012.
Hæstiréttur sneri þannig við úrskurði Landsréttar sem hafði samþykkti kröfu Þorsteins Más um að dómkvaddur matsmaður myndi framkvæma matsbeiðni.
Þorsteini Már ber að greiða Seðlabankanum samtals 800 þúsund krónur í kærumálskostnað fyrir Landsrétti og Hæstarétti, samkvæmt dómi sem Hæstiréttur kvað upp í dag.
Matsgerðin væri bersýnilega tilgangslaus
Hæstiréttur taldi af framsetningu matsbeiðni og skýringum Þorsteins Más að málatilbúnaður yrði ekki skilinn á aðra leið en að tilgangur beiðninnar væri í reynd sá að ákveðin gögn, í vörslum héraðssaksóknara sem ekki var aðili að málinu, kæmust að í málinu og þá með þeim hætti að dómari gæti tekið afstöðu til þess hvort þau hefðu að geyma persónuupplýsingar eða viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga.
Litið hafi verið til þess að Þorsteinn Már hefði ekki nýtt sér úrræði til að beina kröfu að héraðssaksóknara um afhendingu gagnanna. Einnig var vísað til þess að matsgerðin myndi ekki jafngilda því að téð gögn sem matsmaður hefði skoðað og rannsakað yrðu sjálfkrafa meðal málsgagna.
„Við þessar aðstæður var talið að umbeðin matsgerð [Þorsteins Más] væri bersýnilega tilgangslaus til sönnunar á þeim atvikum sem hann byggði málatilbúnað sinn á. Var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og beiðni um dómkvaðningu matsmanns hafnað.“